Home Fréttir Í fréttum Veggjöld til að flýta samgönguframkvæmdum

Veggjöld til að flýta samgönguframkvæmdum

107
0
Mynd: Shutterstock
Stefnt er á að hefja innheimtu veggjalda á höfuðborgarsvæðinu innan tveggja ára samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra ætlar að leggja fram í haust. Gjöldin verða notuð til að fjármagna samgöngubætur og til að draga úr umferðarþunga á álagstímum.

Gjaldtakan byggir á samgöngusáttmálanum svokallaða sem ríkið og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu árið 2019. Frumvarpið sem fjármálaráðherra hefur boðað heimilar innheimtu veggjalda frá 1. janúar 2024.

<>

„Grunnhugmyndin eins og hún var hugsuð þegar samningurinn var gerður var sú að geta beitt gjaldtöku annars vegar til að fjármagna þá miklu uppbyggingu sem á að eiga sér stað hér og eins til að stýra umferðinni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf, sem mun sjá um gjaldtökuna, sagði í Speglinum nýverið að miðað væri við að gjöldin skiluðu um 5 til 6 milljörðum króna á ári og stæðu undir um helming alls kostnaðar vegna þeirra samgöngubóta sem eru fyrirhugaðar.

Gert er ráð fyrir að rúmir 52 milljarðar fari í vegaframkvæmdir og stokka. Tæpir 50 milljarðar í Borgarlínu, rúmir 8 í hjólastíga og göngubrýr og rúmir 7 milljarðar í bætta umferðarstýringu.

Ekki er búið að móta tillögur varðandi það hvernig gjaldtöku verður háttað. Mögulega verður komið upp sjálfvirkum gjaldhliðum við allar stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu og mögulega líka innan borgarmarka. Einnig hefur komið til greina að hafa hærri gjöld á álagstímum til að dreifa umferð.

Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir tekjur af gjaldtöku fara eingöngu í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

„Þegar um þetta var samið á sínum tíma í samgöngusáttmálanum þá var það alveg skýrt að flýtiumferðargjöld yrðu þau lögð á hér þá færi það til þeirra framkvæmda sem eru tilgreind í samgöngusáttmálanum. Þannig að það á að vera nokkuð skýrt,“ segir Páll Björgvin.

Með gjaldtöku á líka að vera hægt að flýta framkvæmdum og hraða uppbyggingu sem annars hefði tekið marga áratugi.

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um nærri 38 þúsund á síðustu tíu árum og umferðin hefur þyngst í samræmi við það.

„Þannig að vöxturinn er gríðarlegur og við þurfum að sjá flýtingu á þessu framkvæmdum. Það var í rauninni hugmyndin þegar var sest niður við þessa samningagerð á sínum tíma,“ segir Páll.

Heimild: Ruv.is