
Metfjöldi íbúða er í byggingu á Akranesi um þessar mundir og aldeilis nóg að gera hjá byggingaverktökum. Blaðamaður Skessuhorns skellti sér í bíltúr í síðustu viku og tók nokkrar myndir af framkvæmdum sem eru í gangi um þessar mundir.

Fjörutíu íbúðir eru að rísa við Asparskóga 18 í húsi sem er beint á móti leikskólanum og auk þess verður bílageymsla í kjallara.

Fyrsta hæð í nýju fjölbýlishúsi er nú risin við Asparskóga 5, en þar verða 28 íbúðir. Framkvæmdir hófust á þessu ári og er áætluð afhending íbúða haustið 2023.

Á Asparskógum 1 eru ÞG verktakar að byggja fjölbýlishús með 28 íbúðum og fara þær í sölu á næsta ári.

Við Dalbraut 6 er Leigufélag aldraðra hses. að byggja samtals 31 íbúð til leigu fyrir 60 ára og eldri og á því verki að ljúka á þessu ári.
Heimild: Skessuhorn.is