Home Fréttir Í fréttum Starfsemi Sólborgar dreift um bæinn vegna myglu

Starfsemi Sólborgar dreift um bæinn vegna myglu

100
0
Mynd: RÚV
Mygla fannst í leikskólanum Sólborg í Sandgerði og verður leikskólanum lokað meðan framkvæmdir á húsnæðinu fara fram. Starfsemi skólans flyst á nokkra staði í bænum, en bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir ekki vitað hve lengi ástandið vari.

Leikskólanum lokað í snarhasti

Rétt fyrir kvöldmatarleytið á miðvikudag fengu foreldrar barna á Sólborg tölvupóst þar sem þeim var tilkynnt að stjórnendur leikskólans hefðu á vormisseri beðið bæjaryfirvöld um að kannað yrði hvort mygla væri í húsnæðinu. Það hefði verið gert í lok ágúst og niðurstöður sem nú lægju fyrir sýndu að mygla hefði fundist í húsakynnum leikskólans og að bregðast þyrfti hratt við. Leikskólinn yrði því lokaður fram á mánudag. Það yrði þó neyðaropnun daginn eftir fyrir þá foreldra sem gætu alls ekki haft börn sín heima. Tölvupósti til foreldra var fylgt eftir með símtali á miðvikudagskvöld. Á föstudag var leikskólinn svo lokaður fyrir öll börn.

<>

Sólborg er Hjallastefnuleikskóli sem rekinn er í húsnæði sveitarfélagsins. Frá og með morgundeginum verður starfsemi leikskólans dreifð um hina ýmsu staði bæjarins.

Ekki vitað hvenær framkvæmdum lýkur

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar segir að málið sé litið afar alvarlegum augum og að brugðist hafi verið hratt við þegar niðurstöður mælinganna lágu fyrir. Bæjaryfirvöld og stjórn leikskólans vinni saman í nánu samstarfi. Hann segir að verið sé að vinna í að koma starfseminni fyrir annars staðar.

„Vonandi tekst  okkur vel til í því máli, að starfsemin geti haldið áfram, þó það sé ekki í leikskólanum sjálfum,“ segir hann.

„Þannig að það var brugðist bara mjög hart við þegar þetta lá fyrir og allir tóku höndum saman um að finna lausnir á málinu.“

Magnús segir að lausnirnar séu tímabundnar. Ekki sé vitað nákvæmlega hvernig fyrirkomulagið verði á næstunni. „Og eins vitum við svo sem ekki heldur hvað þetta mun taka langan tíma. Þannig að það á eftir að koma í ljós bara.“

Hann segir mikla áherslu hafa verið lagða á að bregðast hratt og vel við.

„Þetta er bara þannig mál að við viljum náttúrulega ekki að börnin okkar og starfsfólkið séu með viðveru í óviðunandi húsnæði, sérstaklega þegar svona er.“

Heimild: Ruv.is