Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins eiganda Björgunar ehf. skrifuðu í dag undir samning um viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn árin 2022 til 2025.
Björgun ehf. hefur eignast nýtt dýpkunarskip sem mun dýpka höfnina.
Björgun ehf. átti lægsta tilboðið í viðhaldsdýpkunina en áætlað er að dýpka þurfi um 600 – 900 þúsund rúmmetra á árunum 2022 til 2025. Björgun hefur eignast nýtt dýpkunarskip, öflugt sanddæluskip, Álfsnes til að sinna þessari dýpkun meðal annarra verkefna. Skipið verður til taks frá 1. september ár hvert til 1. maí.
Útboðið fór fram á Evrópska efnahagssvæðinu og hljóðaði tilboð Björgunar upp á ríflega milljarð íslenskra króna sem var um 16 prósent yfir áætluðum verktakakostnaði en um helmingi lægra en næsta tilboð.
Þorsteinn Víglundsson sagði að Álfsnesið væri að ljúka verkefnum á Bíldudal en myndi síðan sigla til Landeyjahafnar. Reiknað er með að dýpkun þar hefjist í lok næstu viku. Herjólfur hinn nýi fer í reglulegan slipp í byrjun október. Þá þarf að dýpka meira en annars þar sem Herjólfur III sem leysir af ristir mun dýpra en nýrri ferjan. Ekki er útlit fyrir annað en að því verki verði lokið vel í tæka tíð.
Líkt og forsvarsmenn Björgunar sagðist Bergþóra Þorkelsdóttir binda vonir við að hið nýja dýpkunarskip myndi reynast vel við íslenskar aðstæður.
Heimild: Vegagerðin