Home Fréttir Í fréttum Kostnaðaráætlun hækkað um þrjá milljarða frá 2019

Kostnaðaráætlun hækkað um þrjá milljarða frá 2019

221
0
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Áætlaður kostnaður við byggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík hefur meira en tvöfaldast á þremur árum. Forseti sveitarstjórnar Norðurþings segir þetta svo mikla hækkun að sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu verði að staldra við og endurmeta stöðuna.

Engar framkvæmdir í níu mánuði

Þegar verktakar mokuðu síðustu skóflunum úr grunni ríflega 4.000 fermetra byggingar hjúkrunarheimilis á Húsavík í desember, gekk allt samkvæmt áætlun og verkið átti að taka tvö ár. Nú rúmum níu mánuðum síðar er allt óbreytt í grunninum og engar framkvæmdir hafnar. Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar í Norðurþingi, segir þetta ekki ásættanlegt. „Það átti náttúrulega að halda áfram með þetta verkefni. En því miður hefur það tafist.“

<>

Hlutur sveitarfélaganna 1,3 milljarðar

Heilbrigðisráðuneytið leiðir verkefnið og ríkið greiðir rúm 76% kostnaðar á móti þremur sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum; Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi. Í upphafi átti verkið að kosta 2,2 milljarða króna, en nú standa áætlanir í 5,3 milljörðum. Þar af er hlutur sveitarfélaganna tæpir 1,3 milljarðar. Hjálmar segir viðræður við ríkið um að draga úr hlutdeild sveitarfélaganna, hún sé hærri en gengur og gerist í sambærilegum verkefnum.

„Ábyrgt af okkur að endurmeta stöðuna“

Hann segir verkefnið sé nú til skoðunar hjá samræmingarnefnd um opinberar framkvæmdir og þar sé verið að meta stöðuna. Það sé hinsvegar ríkisins að ákveða hvort haldið verði áfram með verkið eða ekki. „Við erum áfram um þetta verkefni, sveitarfélögin þrjú sem standa að þessu, og ætlum að vinna að framgangi þess. En auðvitað er ábyrgt af okkur að endurmeta stöðuna og sjá hver hún er. Því þetta eru umtalsverðar hækkanir og umtalsvert miklir peningar.“

Heimild: Ruv.is