Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Tímabærar vegaframkvæmdir í Refasveit í Húnavatnssýslu

Tímabærar vegaframkvæmdir í Refasveit í Húnavatnssýslu

137
0
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Vegavinna stendur yfir á fimmtán kílómetra kafla í Austur-Húnavatnssýslu. Oddviti sveitarstjórnar á Skagaströnd segir framkvæmdina löngu tímabæra og telur með ólíkindum að engin banaslys hafi orðið á veginum.

Vegurinn orðinn barn síns tíma

Í Refasveit í Austur-Húnavatnssýslu er unnið að því að byggja 106 metra langa og 14 metra háa brú yfir Laxá. Sitthvorum megin við brúna eru að eiga sér stað miklar framkvæmdir á Þverárfjalls- og Skagastrandarvegi.

<>

Nýi vegurinn, sem liggur frá Blönduósi með tengingu inn á Þverárfjallsveg og afleggjara á Skagaströnd, verður í heild yfir fimmtán kílómetrar. „Þ­að er bara kominn tími á bæði veg, og brúin upp frá er orðin gömul og einbreið og vegurinn hér á milli er náttúrulega bara barn síns tíma, lélegur. Miklir þungaflutningar eru um þessa vegi þannig að það er bara kominn tími á endurnýjun,“ segir Ámundi Rúnar Sveinsson, verkstjóri.

Og hvaða áhrif munu þessar breytingar þá hafa?

„Þær hafa náttúrlega mikil áhrif fyrir þetta samfélag hér, þetta stórbætir samgöngurnar og umferðaröryggi fyrst og fremst,“ segir Ámundi og bætir við að vinnan gangi samkvæmt áætlun og verklok séu áætluð haustið tvö þúsund tuttugu og þrjú.

„Með ólíkindum að enginn skuli hafa látist í umferðinni hérna á undanförnum árum“

Bæði bæjarstjórn og íbúar á Skagaströnd fagna framkvæmdinni. „Þetta mun náttúrlega vera alveg gríðarleg samgöngubót fyrir okkur, það að komast yfir mun öruggari veg og tvíbreiða brú og sneiða fram hjá þessum blindhæðum og þessum örmjóa vegi verður náttúrulega bara stórkostlegt,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar á Skagaströnd.

Vegabæturnar eigi líka eftir að hafa jákvæð áhrif á ýmsa starfsemi. „Hérna erum við rétt hjá sorpurðunarstað þar sem urðuð eru rúmlega 20 þúsund tonn á ári og síðan eru náttúrlega fiskflutningar á þeim afla sem berst á land á Skagaströnd og eins frá Sauðárkróki. Þannig að það leynir mjög á sér, þungaflutningar á þessum vegi, og með ólíkindum að enginn skuli hafa látist í umferðinni hérna á undanförnum árum,“ segir Halldór.

Heimild: Ruv.is