Home Fréttir Í fréttum Glæsilegt íþróttahús „endurvígt“ á Flúðum

Glæsilegt íþróttahús „endurvígt“ á Flúðum

398
0
Mynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í dag var nýtt og stærra íþróttahús formlega vígt á Flúðum í Hrunamannahreppi, við fjölmenna og fjöruga athöfn. Húsið er hið glæsilegasta og vel útbúið.

<>

Viðbyggingin er rúmlega tvöföldun á eldra húsnæði sem vígt var árið 1993. Með stækkuninni er nú kominn handboltavöllur í fullri stærð ásamt áhorfendabekkjum í húsið. Viðbyggingin er 730 fermetra stækkun á eldra húsnæði ásamt 180 fermetra áhaldageymslu. Heildarkostnaður við verkið er um 230 milljónir króna.

Ragnar Magnússon, oddviti og Elsa Ingjaldsdóttir, formaður Umf. Hrunamanna fluttu ávörp í upphafi samkomunnar áður en sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna, blessaði og vígði húsið formlega.

Að því loknu léku ungir iðkendur úr UMFH listir sínar með fimleika, frjálsíþrótta og körfuboltaæfingum. Að því loknu var haldinn sýningarleikur í körfubolta þar sem úrvalsdeildarlið FSu lék gegn UMFH plús og sáust þar frábær tilþrif.

„Sennilega er þetta eitt best búna íþróttahús landsins, tæknilega séð. Auk viðbyggingarinnar hefur eldri hluti hússins verið bættur með nýrri led-lýsingu og loftræsti- og reyklosunarkerfi,“ sagði Ragnar oddviti í ávarpi sínu.

„Það skiptir miklu máli fyrir samfélag eins og okkar að eiga fullbúið íþróttahús vegna þess mikla og góða íþróttastarfs sem hér er og hefur verið um áraraðir á okkar svæði. Ég vona að sveitungar, nærsveitungar og gestir eigi eftir að nýta sér þetta hús í enn meira mæli, svo vel er það búið tækjum og tólum,“ sagði Ragnar ennfremur.

Elsa Ingjaldsdóttir, formaður UMFH, þakkaði öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við verkið og sagði það stóran áfanga að svona glæsilegt hús risi í ekki stærra samfélagi en í Hrunamannahreppi. Iðkendur UMFH eru 240 talsins, eða nálægt 30% íbúa hreppsins. Það hlutfall er margfalt hærra en í mörgum öðrum sveitarfélögum.

Heimild: Sunnlenska.is