Home Fréttir Í fréttum 500 fermetra mathöll og stækkun í kortunum á Glerártorgi

500 fermetra mathöll og stækkun í kortunum á Glerártorgi

315
0
Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Áætlað er að 500 fermetra mathöll verði opnuð á Glerártorgi á næsta ári. Þá er stefnt að því að verslunarmiðstöðin stækki og bílastæðum fjölgi og ákveðið er að verslanir færi sig um set, Nettó flyst til dæmis í haust í plássið þar sem Rúmfatalagerinn var í suðvestur hluta hússins.

<>

„Það er margt skemmtilegt í pípunum og margar stórar hugmyndir í gangi sem er of snemmt að tala um en skýrist vonandi fljótlega. Við erum að vinna að ýmsum áherslu – og skipulagsbreytingum sem styrkja munu verslunarmiðstöðina enn frekar, ” segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fasteignafélaginu Eik, við Akureyri.net.

Framkvæmdir í rýminu sem Rúmfatalagerinn var áður í eru í fullum gangi en Nettó færir sig þangað í haust.

Opna huggulega mathöll

Stærsta breytingin er tilkoma 500 fermetra mathallar sem sett verður upp í norðausturhluta verslunarmiðstöðvarinnar, þar sem Kaffitorg og Vodafone eru nú til húsa. Að sögn Sturlu er um að ræða virkilega flott „veitinga-konsept”, í anda flottustu mathalla höfuðborgarinnar og Gróðurhússins í Hveragerði.

„Við erum langt komin með undirbúning og höfum gengið frá samningi við veitingaaðila sem hafa sannað sig í sambærilegum mathöllum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta verður nýtt, flott og spennandi, svona „high end“ stemning, með sófum og þess háttar, virkilega huggulegt,“ segir Sturla.

-Er ekkert skrítið að Glerártorg sé að vinna að opnun mathallar þegar nýlega var tilkynnt að 1000 fm mathöll yrði opnuð í gamla Ásprents húsnæðinu við Glerárgötu sem er aðeins spölkorn frá Glerártorgi?

Á þessu svæði í norðausturhluta Glerártorgs verður opnuð mathöll á næsta ári.

„Við höfum lengi viljað gefa veitingum meira pláss í verslunarmiðstöðinni svo við höldum bara okkar áformum sama hvað aðrir gera. Þetta er ekki ný hugmynd hjá okkur heldur eðlilegt skref að stíga,” segir Sturla og útskýrir málið betur. „Við þurfum að gera breytingar í takt við tímann og tíðarandann. Hluti af því er að styrkja veitingaþjónustuna í verslunarmiðstöðinni sem hefur verið alveg í lágmarki miðað við það sem gengur og gerist í sambærilegum verslunarmiðstöðum. Eins og staðan er núna þá er aðeins 3% af heildarþjónustunni á Glerártorgi veitingar sem er lítið miðað við það sem gengur og gerist almennt í verslunarmiðstöðum. Við ætlum að stækka þennan hluta um helming en erlendis eru veitingastaðir oft 20% af heildarhlutfalli verslunarmiðstöðva. Mathöllin um styrkja Glerártorg enn frekar og laða að yngra fólk.“

Leiksvæðin hafa aftur verið sett upp á göngum Glerártorgs eftir að hafa verið tekin niður í covid. Fyrirhugað er að gera endurbætur á lýsingu og setusvæðum.

Stækkun fyrirhuguð

Meðal annars til þess að skapa pláss fyrir mathöllina, sem opna mun á næsta ári, þá þurfa einhverjir þjónustuaðilar að færa sig til innan Glerártorgs og mun það gerast á næstu mánuðum. Nettó mun t.d. fara yfir í rýmið sem Rúmfatalagerinn var áður í og þá eru uppi hugmyndir um 700 fm stækkun á verslunarmiðstöðinni í suðvestur. „Það er búið að gera breytingar á deiliskipulagi sem hefur verið samþykkt en það hefur ekki enn verið sótt um formlegt byggingarleyfi fyrir byggingunni, svo það er ekkert í hendi með það, en við erum með ákveðnar hugmyndir sem við höfum kynnt fyrir aðilum á Akureyri,“ segir Sturla. Samhliða stækkun á húsinu munu einnig bætast við um 100 bílastæði.

– Nú hafa samt einhverjar verslanir verið að fara úr verslunarmiðstöðinni, er leigan of há eða hvað veldur?

Nettó mun í haust færa sig yfir í rýmið sem Rúmfatalagerinn var áður í.

„Það er bara eðlilegt að það sé hreyfing á verslunum en það er alltaf viðskiptavinurinn sem á endanum velur hvort verslanir séu í rekstri eða ekki með því að beina viðskiptum sínum þangað. Hvað varðar leiguna á Glerártorgi þá er hún allt að helmingi lægri en gerist og gengur á höfuðborgarsvæðinu, þannig það getur verið mjög fýsilegt fyrir fyritæki að bjóða upp á þjónustu sína hér, enda Akureyri stórt markaðssvæði sem á bara eftir að styrkjast,“ segir Sturla. Hann segir að nýtingin á Glerártorgi sé mjög góð um þessar mundir, en um 95% húsnæðisins sé útleigt en á tímum skipulagsbreytinga sé gott að hafa smá slaka. „Þá erum við líka að fara í endurbætur á setusvæðum og á lýsingu og ætlum að gera hlutina umhverfisvænni. Glerártorg verður í heildina skemmtilegri og eftirsóknarverðari staður eftir þessar betrumbætur,“ segir Sturla spenntur fyrir komandi breytingum.

Heimild: Akureyri.net