Eldur kom upp í dráttarvél miðvikudagsmorgun er henni var ekið á Úlfarsfellsvegi í Grafarholti. Eldurinn dreifðist síðan úr dráttarvélinni og náði að læsa sig í nærliggjandi bifreið sem að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var nýleg Tesla.
Þetta staðfestir Birgir Finnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins en greint var frá málinu á facebook-síðu slökkviliðsins.
Eigandi dráttarvélarinnar ók vélinni við vinnu þegar það kom skyndilega upp reykur úr vélinni. Hélt eigandinn þá áfram að keyra vélina og lagði henni á nærliggjandi bílastæði þar sem Tesla-bifreiðinni hafði einnig verið lagt.
Eftir að eigandinn hafði komið sér frá dráttarvélinni magnaðist eldurinn upp og barst yfir í bílinn með þeim afleiðingum að altjón varð. Að sögn slökkviliðsins var bilið á milli bifreiðanna á við um einn bíl og því töluverður eldur sem stóð upp úr dráttarvélinni þegar mest var.
Tvöfaldaðist þar með tjón eigandans en bæði dráttarvélin og Tesla-bifreiðin urðu eldinum að bráð þannig að altjón varð.
Heimild: Mbl.is