Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Höllin tilbúin í haust: Kostnaður hleypur á 300 milljónum

Höllin tilbúin í haust: Kostnaður hleypur á 300 milljónum

230
0
Skipta þurfti um gólfefni eftir að vatn komst í steinull undir gólfinu Fréttablaðið/Stefán

Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri íþrótta- og sýningarhallarinnar í Laugardal, segir að Laugardalshöll verði tilbúin til að hýsa íþróttaviðburði á ný í haust, tæpum tveimur árum eftir að leki varð til þess að það þurfti að skipta um gólf á keppnisfleti Laugardalshallar.

<>

„Völlurinn verður tilbúinn í haust, líklegast í byrjun september. Það er búið að vinna í þessu stanslaust og verktakinn er á fullu við að klára öll verkefnin,“ segir Birgir.

Hann bætti við að framkvæmdirnar hefðu tafist þegar fjölmargir kærðu útboð verksins en búið er að leysa það.

Undanfarna daga hefur málefni nýrrar þjóðarhallar sem myndi taka við hlutverkinu af Laugardalshöll verið til umræðu enda Laugardalshöll ólögleg keppnishöll í hand- og körfubolta.

Um miðjan nóvember 2020 kom upp leki í Laugardalshöll og komst vatnið undir gólfið og í steinullina sem varð til þess að skipta þurfti um gólf.

Um leið var ákveðið að ráðast í að endurnýja lýsinguna.

Birgir segir kostnaðinn vera nálægt þrjú hundruð milljónum en að tryggingarnar eigi sinn þátt í því að bæta gólfið.

„Þetta verður líklegast vel á þriðju hundrað milljóna samkvæmt okkar áætlunum. Stór hluti af því er gólfið en inn í þessu er líka lýsing sem verður á heimsmælikvarða sem býður upp á útsendingar í 4K.“ segir Birgir og heldur áfram:

„Það er búið að lagfæra og uppfæra búningsklefanna og lagfæra aðgengið að gömlu Laugardalshöllinni.“

Heimild: Frettabladid.is