Ekki eru gerðar nógu miklar kröfur varðandi öryggi starfsfólks í vegavinnu hér á landi. Meiri áhersla er á að halda uppi umferðarhraða og greiða leið umferðar, heldur en öryggi starfsfólks. Aðeins sé tímaspursmál hvenær banaslys verði hér á landi vegna þessa.
Þetta segir Harpa Þrastardóttir, umhverfis- öryggis- og gæðastjóri Colas á Íslandi, en fyrirtækið sérhæfir sig í malbikun og gatnaframkvæmdum.
Hún segir að Colas á Íslandi sé ókleift að fylgja grunnöryggisreglum sem Colas-samsteypan setur, meðal annars varðandi lokanir, og því sé ekki hægt að tryggja öryggi starfsfólks við vegavinnu með fullnægjandi hætti. Íslendingar séu eftirbátar annarra Evrópuþjóða í þessum efnum.
Engar varnir við holuviðgerðir
„Við erum ekki að gera nógu miklar kröfur. Annars vegar erum við ekki að gera nógu miklar kröfur á lokanir, að það sé tryggt öryggi með nægum lokunum. Það má einhvern veginn aldrei draga úr umferðarhraða.
Það er alltaf verið að hugsa um að umferðin komist hratt og örugglega í gegnum vinnusvæðin. Það verður oft mikill pirringur á sumrin og fólk kvartar yfir því að allar götur séu lokaðar. En meðan erum við að fórna öryggi við vinnuna í staðinn,“ segir Harpa í samtali við mbl.is.
„Hins vegar er það að þegar eru gerðar kröfur þá er ekki alltaf verið að fylgja því eftir að þessar lágmarkskröfur séu uppfylltar. Ég var bara horfa út um gluggann í síðustu viku, þar sem var verið að vinna fyrir utan hjá okkur, og það voru engar varnir á meðan þeir voru í holuviðgerðum á veginum.“
Í slíkum aðstæðum liggi ábyrgðin hjá fyrirtækjunum og jafnframt eftirlitsaðilum að gera ekki athugasemdir. Þeir séu þá ekki að sinna sínu eftirlitshlutverki varðandi öryggismál.
Harpa segir því starfsfólk í vegavinnu í mikilli hættu. „Já, það er þannig, því miður.“
Vegagerðin og Reykjavíkurborg beri ábyrgð
Í dag sendi hún út ákall fyrir hönd Colas á Íslandi þar sem skorað er á veghaldara, eftirlitsaðila og aðra sem koma að vegagerð að taka sig á í þessum málum og bæta ástandið. Hún deildi áhyggjum af stöðunni og benti á að nýlega hefði orðið banaslys í Póllandi þar sem ökumaður blindaður af sól keyrði inn á vinnusvæði Colas með þeim afleiðingum að starfsmaður lést.
Harpa segir að Vegagerðin og Reykjavíkurborg beri mikla ábyrgð á stöðunni eins og hún er.
„Vegagerðin og Reykjavíkurborg eru með námskeið um það hvernig á að loka vegum og það er alltaf meiri fókus á það að draga ekki of mikið úr umferðarhraða. Að fólk geti keyrt framhjá vinnusvæðunum í stað þess að draga meira úr hraðanum og leyfa fólkinu sem er að vinna að vera öruggu.“
Í vinnureglum Colas-samsteypunnar, sem unnið er eftir í 49 löndum, er hins vegar kveðið á um að við vegavinnu að loka eigi alveg vegum í þéttbýli ef akreinar eru þrjár eða færri.
Harpa segir Íslendinga eftirbáta annarra Evrópuþjóða þegar kemur að öryggi starfsfólks við vegavinnu. „Ég held að við séum eina landið hérna í Evrópu þar sem Colas er ekki að fylgja þeim reglum sem Colas-samsteypan setur sér varðandi lokanir. Það þekkist ekki hér að loka svona mikið eins og eru grunnreglur innan fyrirtækisins.“
Heimild: Mbl.is