Home Fréttir Í fréttum Hreinsunarbúnaður settur í jörð og hús á Hofsósi

Hreinsunarbúnaður settur í jörð og hús á Hofsósi

140
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Umfangsmiklar aðgerðir standa nú yfir á Hofsósi, í þeim tilgangi að hreinsa bensínmengun úr jarðvegi í þorpinu. Sérstakur hreinsibúnaður verður settur ofan í jörðina og inn í hús.
Á þriðja ár eru síðan mörg þúsund lítrar láku úr birgðatanki bensínstöðvar N1 á Hofsósi.

Rannsóknir hafa bent til þess að mengunin sé ekki beinlínis bundin í jarðvegi, heldur sé þetta gasmengun í holrýmum í jörðinni. Hefðbundin jarðvegsskipti séu því ekki fýsilegur kostur.

<>

Búnaður sem dregur gasmengun úr jarðveginum

Því er nú verið að grafa skurði umhverfis þau hús sem urðu fyrir barðinu á menguninni og í skurðina er settur sérstakur loftunarbúnaður sem smám saman á að hreinsa þessa mengun úr jarðveginum.

„Það er komið á undirþrýstingi ofan í jörðinni sem dregur gasmengunina upp í gegnum kolasíur sem þá gleypa í sig lyktina. Þannig að það á ekki að vera lykt heldur við þessar hreinsunaraðgerðir,“ segir Kristín Kröyer, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Mynd: RÚV – Ágúst Ólafsson

Bensínlykt af jarðveginum

Mengunin er mæld jafnóðum og grafið er og það er greinileg bensínlykt af moldinni. Sýni úr jarðveginum eru send til frekari rannsókna.

Sérhannaður búnaður fyrir hvert hús

En það verður einnig settur búnaður í húsin sem á að hindra að gasmengun berist þar inn, mismunandi búnaður milli húsa. „Það kom maður og skoðaði hvað er hægt að gera og hvað þarf að gera í hverju húsi fyrir sig. Það er í hönnun núna og vonandi verður það sett upp sem fyrst,“ segir Kristín.

Aðgerðirnar eiga að duga til að hreinsa jarðveginn að fullu

Í áætlunum Umhverfisstofnunar segir að hreinsunarstarf geti tekið allt að þrjú ár, eftir að allur búnaður er kominn í gagnið. Það eigi þó ekki við um húsin sem ættu að verða íbúðar- og notkunarhæf fyrr.

„Teljið þið að þetta séu varanlegar lokaaðgerðir, sem verið er að fara í?“

„Það er gert ráð fyrir því. Þetta eru aðgerðir sem eiga að leiða af sér endanlega hreinsun á jarðveginum og það er það sem stefnan er sett á,“ segir Kristín.

Heimild: Ruv.is