Home Fréttir Í fréttum Vaxandi hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli

Vaxandi hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli

210
0
Varnarliðið yfirgaf völlinn árið 2006. Fréttablaðið/Vilhelm

Milljarða framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og aukin umsvif þar koma til vegna aukins eftirlits með ferðum Rússa og æ meiri spennu á milli þeirra og Úkraínumanna.

<>

Aukin hernaðarum­svif Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli á undanförnum mánuðum setja æ sterkari svip á Keflavíkurflugvöll að því er heimildir Fréttablaðsins innan vallarins herma.

Umskiptin hafa verið mikil á síðustu misserum og birtast í meiri umferð herflugvéla á flughlaðinu, fleiri ökutækjum sem þjónusta þær, öðrum tengdum umsvifum og annríki í kringum stóra flugskýlið suðaustan við Leifsstöð, í grennd við gömlu flugstöðina, en þar hefur herinn aðstöðu til að undirbúa vélar sínar til flugs.

„Frá því Bandaríkjamenn tóku í notkun nýjar kafbátaleitarflugvélar fyrir nokkrum árum hafa þeir aukið verulega viðveru sína hér á landi,“ segir Friðþór Eydal, fyrrverandi upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem gjörþekkir starfsemi hersins frá því fyrir og eftir að hann starfrækti herstöð á vellinum.

„Nú í seinni tíð hefur herinn verið með allt upp undir sjö leitarvélar í einu, en hverri vél fylgir ekki aðeins tíu manna áhöfn heldur og fjölmennt stuðningslið,“ segir Friðþór.

„Það má segja að herinn sé að byggja upp aðstöðu sína á vellinum frá grunni eftir að hann yfirgaf völlinn haustið 2006, en þessum nýju kafbátaleitarvélum fylgir mikil þjónusta – og hún fer vaxandi.“

Tíu milljarða uppbygging
Kostnaður við þessa uppbyggingu Bandaríkjamanna hefur numið hátt í tíu milljörðum króna og koma þar margir verkþættir til sögunnar, svo sem uppbygging færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, stækkun flughlaðs fyrir herinn og viðhald á flugskýlum.

Þá er einnig verið að byggja upp svæði til að meðhöndla hættulegan vopnabúnað og endurnýja þvottastöð fyrir leitarvélarnir en mikil selta sest á þær í lágflugi á úthafinu.

„Umsvifin síðustu mánuði hafa aukist vegna fleiri æfinga og meira eftirlits,“ segir Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum. „Þunginn er að færast norður,“ segir hann. „Þetta sést meðal annars á því að bara frá nýliðnum jólum og fram til 20. janúar hefur verið flogið daglega frá Keflavík allt austur yfir Eystrasalt vegna átaka Rússa og Úkraínumanna,“ segir hann.

„Ástæðan fyrir aukinni notkun Keflavíkurflugvallar er líka sú að Bandaríkjamenn ætluðu að útbúa aðstöðu í Skotlandi fyrir leitarvélarnir, en þar eð Bretar eru að taka í notkun sínar eigin vélar þar um slóðir er sú áætlun ekki komin til framkvæmda,“ segir Albert.

Heimild: Frettabladid.is