Stefnt er að því að flytja milljón tonn af íblöndunarefni í sement úr landi frá Þorlákshöfn.
Félagið Hornsteinn leiðir þróunarvinnuna en verkefnið er metið á 10 milljarða króna. Mikil tækifæri eru sögð liggja í því að nú sé skortur á heimsvísu á þessum íblöndunarefnum.
Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins, sem á og rekur BM Vallá, mætti á fund bæjarstjórnar Ölfuss í síðustu viku til að fara yfir stöðuna á verkefninu sem hefur verið í þróun á annað ár.
Fyrirtækið áformar að sækja um lóðir við Þorlákshöfn sem þarf undir verksmiðjuna og að framleiðsla á fullunnu efni gæti hafist árið 2024.
Framleiðslan yrði umhverfisvæn en móberg og önnur efni yrðu brennd við háan hita til að ná fram flugösku áhrifum en skortur hefur verið á þessum efnum eftir að kolaverum hefur verið lokað.
„Það er að verða verulegur skortur á íblöndunarefnum í sement eftir að kolaverin hafa verið að loka sem skapa þessi tækifæri hér á Íslandi,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss.
Elliði segir að framleiðslan muni draga úr kolefnisspori á bak við steypuframleiðslu.
„Það sem gerir þetta mögulegt hjá okkur er aðgengi að jarðefnum og lóðir á hafnarsvæðinu og við erum að ráðast í gríðarlega miklar framkvæmdir við höfnina sem gjörbreytir tækifærum okkar til að ráðast í verkefni sem þessi.“
Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting á bak við framkvæmdina nemi 10 milljörðum króna.
„Þetta er gott verkefni fyrir margar sakir, fyrsta lagi mjög umhverfisvænt verkefni og dregur úr kolefnisspori á bak við steypuframleiðslu, þetta er allt í lokuðum ferlið er lokað þannig að það er hvorki ryk eða hljóðmengun af þessu eða opnar efnisnámu eða nokkuð annað, þetta fellur að þessum áherslum sem við höfum í atvinnusköpun,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss.
Heimild: Visir.is