Bröggum frá stríðsárunum hefur farið fækkandi í Reykjavík og nú stendur til að rífa einn slíkan, sem staðið hefur við Sævarhöfða í Reykjavík.
Þetta er áberandi rauður braggi sem blasað hefur við öllum sem leið hafa átt inn eða út úr Bryggjuhverfinu.
Breska setuliðið reisti þennan bragga á sínum tíma og Björgun hf. notaði hann sem vörugeymslu á meðan fyrirtækið var með starfsemi á svæðinu.
Faxaflóahafnir keyptu braggann af Björgun árið 2016 en framseldu hann til Reykjavíkurborgar árið 2018.
Á fundi byggingarfulltrúa 21. september sl. var eignasjóði Reykjavíkurborgar veitt leyfi til að rífa braggann á lóð númer 33 við Sævarhöfða með tilvísan til laga um mannvirki frá 2010.
Stærð braggans er 384 fermetrar, 1.884 rúmmetrar. Bragginn verður því ekki endurbyggður á sama stað eins og bragginn í Nauthólsvík enda stendur hann á svæði þar sem nýtt hverfi, Bryggjuhverfi vestur, er byrjað að rísa.
Fram kemur í húsakönnun Borgarsögusafns frá 2021 að bragginn í Sævarhöfða hafi verið mældur 1993 og skráður á fasteignaskrá árið eftir.
Bragginn sé líklega aðfluttur en óljóst sé hvaðan hann kemur. Hann sjáist á loftmyndum frá 1975. Þetta sé dæmigerður braggi af Nissen-gerð, stálgrindarhús á steyptum grunni með bárujárnsklæðningu.
Hann sé hluti af athafnasvæði Björgunar, tengist sögu iðnaðar á Ártúnshöfða en einnig sögu hernámsára. Hann hafi sem slíkur miðlungs varðveislugildi, en sé litið til byggingarlistar sé varðveislugildið hátt enda virðist hann að mestu óbreyttur.
Heimild: Mbl.is