Home Fréttir Í fréttum Dýpkunarframkvæmdir ganga vonum framar

Dýpkunarframkvæmdir ganga vonum framar

101
0
Kostnaður við hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn gæti orðið fjórðungi minni en áætlun gerir ráð fyrir. „Við gætum sparað hálfan milljarð króna miðað við kostnaðaráætlun, verkið gengur miklu betur en áætlað var“, segir Hjörtur Bergmann Jónsson hafnarstjóri í Þorlákshöfn.

Við dýpkun hafnarinnar sem staðið hefur síðan í ágúst hefur komið í ljós að þar er meira af lausu efni, sandi, möl og grjóti, og minna af bergi en talið var. Á næsta ári átti að sprengja gömlu Norðurvararbryggjuna og berg á botninum, en nú gæti svo farið að aðeins þurfi að sprengja bryggjuna. Reiknað var með að framkvæmdirnar í ár og á næsta ári kostuðu 900 milljónir. Á árunum 2017 og 2018 verður svo skipt um stálþil í höfninni svo viðhalda megi dýpt hennar. Kostnaðaráætlun alls verksins nemur 2 milljörðum króna.

<>

„Við lögðum áherslu á að fá pramma með stórvirkri gröfu til að grafa upp úr höfninni, fremur en að dæla upp úr henni og það hefur virkað vel. Framkvæmdirnar á næsta ári munu aðeins kosta hluta af því sem áætlað var“, segir Hjörtur. Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á dögunum viðauka við fjárhagsáætlun hafnarinnar á þessu ári, þar sem framlag til framkvæmdarinnar er aukið um 50 milljónir króna. Um leið lækki framlag á næsta ári, enda kostnaður á rúmmetra við sprengivinnu meira en fimmfaldur, miðað við moksturinn. Bæjarsjóður greiðir 40% af hafnarframkvæmdum, ríkissjóður 60%.

Hafnarstjórinn segir að við breytingarnar aukist allir möguleikar til þjónustu við sjávarútveg og iðnað. Þær gætu skapað ný tækifæri fyrir atvinnulífið og til margs konar atvinnuuppbyggingar í Þorlákshöfn. Í höfninni verði hægt að taka á móti allt að 180 metra löngum skipum, sem risti mun dýpra en þau sem nú komist inn. Í þessu felist mikil sóknarfæri. „Héðan er fluttur út vikur og hér er skipað upp salti, áburði og innfluttum varningi. Þorlákshöfn liggur vel við siglingum til og frá Evrópu, það er 10 tímum skemmri sigling til Evrópu en frá höfnum við innanverðan Faxaflóa. Endurbætt höfn gæti líka opnað á viðkomu skemmtiferðaskipa og jafnvel ferjusiglinga“, segir Hjörtur Bergmann Jónsson.

Heimild: Ruv.is