Home Fréttir Í fréttum Smíði nýrrar risabrúar gæti brotið ESB-reglur

Smíði nýrrar risabrúar gæti brotið ESB-reglur

25
0
Ríkisstjórn Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, hefur lagt blessun sína yfir framkvæmdina. Dómstóllinn gerir aftur á móti ýmsar athugasemdir. AFP

Ítölsk stjórnvöld eiga á hættu að brjóta reglur Evrópusambandsins ef þau halda áfram með að reisa nýja umdeilda brú frá meginlandi Ítalíu til Sikileyjar.

Þetta kemur fram í úrskurði dómstóls sem hefur eftirlit með opinberum útgjöldum.

Hægristjórn Giorgiu Meloni forsætisráðherra samþykkti í ágúst að ráðast í smíðina sem metin er á 13,5 milljarða evra eða sem jafngildir um 2.000 milljörðum króna. Brúin yfir Messínasund yrði lengsta hengibrú í heimi.

Í úrskurðinum, sem var birtur í gær, kom fram að núverandi verkefni brytu í bága við tilskipun ESB sem snýr að vernd náttúrulegra búsvæða og tegunda.

Þar segir að ítalska ríkisstjórnin hafi komist hjá því að þurfa að leita álits framkvæmdastjórnar ESB á umhverfisáhrifum með því að lýsa því yfir að verkefnið þjónaði „brýnum ástæðum sem varða yfirgnæfandi almannahagsmuni“.

20 ára gamalt samkomulag

Dómstóllinn bætti við að þessar ástæður væru ekki staðfestar af tæknilegum aðilum og ekki studdar fullnægjandi gögnum.

Dómstóllinn sagði einnig að samkvæmt evrópskum útboðsreglum hefði hann búist við að nýtt útboð yrði haldið með hliðsjón af mikilli kostnaðaraukningu og breytingum á fjármögnun frá upprunalega verkefninu, en upphaflegt samkomulag er orðið tveggja áratuga gamalt.

Alþjóðlegi náttúruverndarsjóðurinn (WWF) sagði það ekki koma á óvart að ákvörðun ríkisstjórnarinnar bryti í bága við umhverfisverndar- og innkaupareglur.

Ítalskir stjórnmálamenn hafa í áratugi talað um brú sem tengir Sikiley og Kalabríuhérað við tá ítalska stígvélsins. Brúin myndi hafa tvær járnbrautarlínur í miðjunni og þrjár akreinar fyrir umferð á hvorri hlið, með 3,3 kílómetra löngu hengi, sem er heimsmet, sem teygir sig á milli tveggja 400 metra hárra turna.

Heimild: Mbl.is