
Árbæjarlón fellur út úr deiliskipulagi og göngu- og hjólastígum sem tengjast Árbæjarstíflu verður breytt, samkvæmt tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Opnað yrði á þann möguleika að fjarlægja hluta stíflunnar.
Talsverðar breytingar gætu orðið á Árbæjarstíflu, samkvæmt tillögu Landslags og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals.
Tillagan var kynnt umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar í gær. Þar er fjallað um Árbæjarlón, Árbæjarstíflu og Rafstöðvarveg.
Árbæjarlón var tæmt varanlega 2020, sex árum eftir að starfsemi var hætt í Elliðaárvirkjun. Nú á að skilgreina náttúrulega árfarvegi Elliðaár í stað lónsins sem er ekki lengur til staðar.
Árbæjarstífla verður skilgreind sem aðgengileg göngutenging yfir Elliðaárnar og aðliggjandi stígum og áningarstöðum breytt.
Í tillögunni er gert ráð fyrir þeim möguleika að hluti Árbæjarstíflu og þrýstivatnspípu virkjunarinnar verði fjarlægður. Minjastofnun hefur veitt heimild fyrir breytingum á þeim mannvirkjum þó að þau séu friðuð. Þó á eftir að vinna útfærslu þess sem yrði gert í samráði við Minjastofnun.
Í staðinn myndi koma upplifunarbrú sem tengist þeim hlutum stíflunnar sem eftir standa, segir í tillögunni. Á henni mætti hafa lágstemmda glýjufría lýsingu sem hefur ekki áhrif á lífríki í ánni.
Heimild: Ruv.is











