Home Fréttir Í fréttum Áform um nýja uppbyggingu í hjarta Hafnarfjarðar

Áform um nýja uppbyggingu í hjarta Hafnarfjarðar

162
0
Nýjar hugmyndir að uppbyggingu - séð úr lofti

Nýjar hugmyndir að metnaðarfullri uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar voru kynntar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í morgun.

<>

Fyrri áform um uppbyggingu á 100 herbergja hóteli að Strandgötu 26-30 í Hafnarfirði hafa þróast í spennandi hugmyndir og áform um matvöruverslun og þjónustu á jarðhæð, nýtt nútíma bókasafn og margmiðlunarsetur, almenningsgarð á 2. hæð og hótelíbúðir í smáhýsum sem liggja við Strandgötuna.

Ef af verður er ljóst að nýtt kennileiti í hjarta Hafnarfjarðar er við það að rísa sem byggir á hönnun og skipulagi sem mun efla og auðga líf og anda miðbæjarins.

Sjá lið 6 í fundargerð bæjarráðs 

 

Nýjar hugmyndir að uppbyggingu – horft frá Strandgötu til suðurs.

Græn svæði og hönnun sem ýtir undir lifandi miðbæ

Verkefnið er leitt af félaginu 220 Miðbær ehf sem er eigandi byggingarreitsins. Með breyttum áformum er verið að svara ákalli íbúa, Hafnarfjarðarbæjar og fyrirtækja á svæðinu um matvöruverslun í miðbæinn, græn svæði og hönnun sem ýtir undir lifandi miðbæ.

Hugmyndirnar eru í góðu samræmi við skýrslu starfshóps um skipulag miðbæjarins, þar sem sérstaklega er horft til þess að tryggja góða blöndu verslunar-, þjónustu og íbúða. Gildandi deiliskipulag heimilar 6400 m2 nýbyggingu á 5 hæða hóteli með verslun og þjónustu á jarðhæð og 2ja hæða tengibyggingu milli hótels og verslunarmiðstöðvarinnar Fjarðar.

Nýjar hugmyndir gera ráð fyrir að byggingarmassi verði færður inn að Fjarðargötu 13-15 og hús sem skapa götumynd Strandgötu verði lækkuð úr 5 hæðum niður í 1-3 hæðir með inndregna 4. hæð.

Um er að ræða byggingarreit upp á 1.750 fermetra og hljóðar samþykkt deiliskipulag í dag upp á 5.980 fermetra byggingarmagn á lóð.

„Þessi hugmyndir að uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar eru mjög spennandi og munu efla hann enn frekar og ýta undir sérstöðuna. Miðbærinn okkar hefur verið að blómstra og dafna undanfarin ár og mikilvægt að við sem sveitarfélag svörum ákalli íbúa og fyrirtækja og ýtum undir áframhaldandi vöxt með því að opna á tækifæri og möguleika fyrir fjölbreytta starfsemi og þjónustu, til samveru, skemmtunar og sköpunar. Þessar nýju hugmyndir falla að mínu mati afar vel að umhverfinu, gömlu byggðinni og sjarma bæjarins“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Bæjarráð Hafnarfjarðar tók jákvætt í hugmyndir skipulagshöfunda og lagði sérstaka áherslu á að hugmyndin og hugmyndafræðin yrði vel kynnt bæjarbúum í næstu skrefum.

Heimild: Hafnafjordur.is