Home Fréttir Í fréttum Garðabær vill fá nýja Landspítalann

Garðabær vill fá nýja Landspítalann

167
0

Bæjarráð Garðabæjar fól Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra, að vekja athygli á kostum landsvæðis við Vífilsstaði undir nýjan Landspítala. Bæjarráð tók í bókun sinni undir þau sjónarmið Samtaka um betri spítala að ástæða sé til að endurskoða staðsetningu nýs spítala.

<>

Meðal gagna sem voru lögð fram á fundi bæjarráðs var skýrsla sem samtökin létu gera. Þar kemur meðal annars fram að þau telji upphafleg rök fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut séu úrelt.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Garðabær blandar sér í umræðuna um nýjan Landspítala. Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi bæjarstjóri Garðabæjar, hvatti ríkisstjórnina og heilbrigðisyfirvöld til að skoða þann kost að hátæknisjúkrahús rísi á landi Vífilsstaða fyrir 14 árum.

Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra hafa ekki gengið í takt hvað staðsetningu nýs Landspítala varðar. Sigmundur Davíð sagði meðal annars í Kastljósi um miðjan þennan mánuð að það gæti verið miklu ódýrara og hraðvirkara að að byggja nýjan hátæknispítala frá grunni á nýjum stað.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur hins vegar stutt við uppbyggingu spítalans við Hringbraut. „Uppbygging Landspítalans við Hringbraut er hafin, komin á fullan skrið og hönnunin á meðferðarkjarnanum er komin í samning og við buðum út byggingu sjúkrahótels í síðustu viku og vikunni þar á undan og framkvæmdir munu hefjast á hausti komanda. Þannig að það verkefni er komið á góðan skrið,“ sagði ráðherrann á Alþingi.

Heimild: Rúv.is