Home Fréttir Í fréttum Byggingaréttur var metinn miklu verðmætari

Byggingaréttur var metinn miklu verðmætari

99
0
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við átján þúsund fermetra hótel í Vatnsmýri næsta sumar. Eigandinn segir hótelið líklega verða það stærsta á Íslandi.

Hótelum hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár, samhliða fjölgun ferðamanna. Ekki sér fyrir endann á þessari fjölgun, og sem dæmi má nefna fyrirhuguð hótel við Hörpu og á Hverfisgötu.

<>

Nýverið var svo ákveðið að ráðast í byggingu hótels á lóð við gatnamót Hringbrautar og Nauthólsvegar, nærri Hlíðarenda. Ljóst er að hótelið verður engin smásmíði.

„Félagið S8 ætlar að byggja allt að 360 herbergja hótel sem er í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og félagsins frá því fyrr á þessu ári. Hönnunarvinna er hafin og það liggja fyrir frumdrög að teikningum. Skipulagið liggur fyrir. Og þetta er allt samkvæmt gildandi skipulagi,“ segir Jóhann Halldórsson, eigandi S8, og bætir því við að stefnt sé að því að hefja framkvæmdir við hótelið í maí á næsta ári. Framkvæmdir við gatnagerð eru þó þegar hafnar. Jóhann segir að byggingin verði tæplega 18 þúsund fermetrar og sennilega stærsta hótel landsins.

Hann segir stefnt að því að opna hótelið 2017. „Það er reyndar bjartsýni. En við Íslendingar erum bjartsýnir,“ segir Jóhann en hafnar eru viðræður við nokkra aðila um undir hvaða merkjum hótelið verði. „En það verður eitthvað þekkt hótel sem mun hefja hér rekstur.“

Ekki er búið að fjármagna verkefnið en S8 verður eigandi verkefnisins. „En síðan verður það væntanlega einhver af íslensku viðskiptabönkunum sem mun styðja við verkefnið,“ segir Jóhann sem telur að verkefnið kosti um 8 milljarða.

Jóhann segir hótelframboð ekki nærri nóg til að anna eftirspurn. „Samkvæmt þeirri kynningu sem Arion banka var með í morgun er alveg ljóst að þótt þetta hótel verði byggt og allt annað sem er í burðarliðnum samkvæmt því sem Reykjavíkurborg hefur upplýst um, þá er það ekki nándar nærri nóg til að anna eftirspurn. Miðað við tvær milljónir ferðamanna í árslok 2017 vantar líklega tvöfalda þá tölu. Í dag er nýtingin 84% sem er það mesta sem þekkist í heiminum.“

Aðspurður segist Jóhann ekki hafa áhyggjur af nálægð hótelsins við Reykjavíkurflugvöll. Hann segir samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins alveg skýrt, um að hinni svokallaðri neyðarbraut eigi að loka. „Skipulagið eins og það er í dag gerir ráð fyrir því að þessi samningur verði efndur. Og það er ekki hægt að byggja á neinum öðrum forsendum. “

Heimild: Rúv.is