Home Fréttir Í fréttum Augu fólks að opnast fyrir uppbyggingu vega á hálendinu

Augu fólks að opnast fyrir uppbyggingu vega á hálendinu

76
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Með því að byggja upp hálendisvegi gætu fleiri skoðað og notið hálendisins. Jafnframt kæmi það í veg fyrir utanvegaakstur, skemmdir á bílum og rykmengun. Stofnvegir á hálendinu eru fjórir; Kjalvegur, Sprengisandsleið, Fjallabaksleið nyrðri og Kaldidalur, samtals 480 kílómetrar.

Þetta kom fram í máli Helga Kjartanssonar oddvita Bláskógarbyggðar á málþingi Vegagerðarinnar um framtíð þjóðvega á hálendinu á þriðjudaginn.

<>

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði í ávarpi að augu fólks hefðu opnast fyrir nauðsyn uppbyggingar á hálendinu. Það hefði gerst með fjölgun ferðamanna og auknum ferðalögum fólks.

Sú umræða er ekki ný af nálinni, að sögn Guðmundar Vals Guðmundssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Vegagerðarinnar, en hann kvað engar áætlanir um framkvæmdir við hálendisvegi á samgönguáætlun næstu fimmtán ára.

Helgi Kjartansson segir mikið álag á hálendisvegunum og viðhald dýrt. Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, tók undir það og áréttaði að bætt akstursskilyrði dreifi ferðamönnum betur um vegi landsins og dragi úr álagi á Hringveginn.

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður sagði að leiðin landshorna á milli styttist til muna með heilsársvegi yfir Kjöl sem auðveldaði ferðamönnum að komast til Norðurlands. Vegurinn sé líka samgöngubót fyrir landsbyggðina.

Hönnun allra vega skal taka mið af náttúruvernd og vernd viðkvæmra svæða segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar. Í því felist upptaktur að samvinnu stofnunarinnar við Vegagerðina um útfærslu vega á hálendinu.

Páll Gíslason staðarhaldari í Kerlingarfjöllum beindi sjónum einkum að Kjalvegi sem þyrfti að byggja upp í anda þess að hálendið sé fyrir alla. Ástand vegarins passi illa við framtíðarstefnu um rafbílavæðingu enda þoli slíkir bílar veginn mjög illa.

Snorri Ingimarsson og Hafliði Sigtryggur Magnússon fulltrúar Ferðaklúbbsins 4×4 segja miðhálendið eiga að vera fyrir þau sem vilji njóta sérstöðu þess og það eigi ekki að verða fjöldaferðamennsku að bráð. Ferðaleiðirnar á hálendinu séu menningarminjar.

Heimild: Ruv.is