
2.800 fermetra verksmiðjuhús plastkassaverksmiðju mun væntanlega rísa á Djúpavogi í lok árs eða í byrjun þess næsta.
Framkvæmdir við grunn hússins eru hafnar.
Í húsinu á að framleiða 1,2 til 1,3 milljónir frauðplastkassa fyrir laxeldisfyrirtækin sem standa að laxasláturhúsinu Búlandstindi.
Laxaslátrunin er forsendan fyrir byggingu plastkassaverksmiðjunnar.
Húsið hefur stækkað frá því sem áætlað var í upphafi, að sögn Elís Hlyns Grétarssonar, framkvæmdastjóra Búlandstinds á Djúpavogi.
Áætlað er að stofnkostnaður húss og tækjabúnaðar geti nálgast 1,5 milljarða króna.
Laxeldið á Austfjörðum gæti þurft 1,2 til 1,3 milljónir kassa á næsta ári og mun þörfin mögulega aukast með aukinni framleiðslu á laxi.
Til að byrja með verða framleiddar fáeinar tegundir kassa fyrir laxeldið en er ekki útilokað að kassar verði seldir til annarra útflytjenda á ferskum fiski frá Austurlandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is