
Bygging nýs hrognahúss við laxeldisstöð Benchmark Genetics Iceland (áður Stofnfisks) í Vogunum á Reykjanesi hefur farið vel af stað og framkvæmdir gengið hratt en fyrsta skóflustunga var tekin í nóvember. Húsið mun auka framleiðslugetu á laxahrognum umtalsvert, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir að hrognahúsið verði tekið í notkun í haust og fyrstu hrognin verði lögð inn um miðjan júní. Í húsinu munu vera 10 þúsund 5 lítra eldisker sem hvert fyrir sig þroskar hrogn undan einni hrygnu og er gert ráð fyrir að framleiðslugeta nýja hússins verði yfir 300 milljónir laxahrogna á ári.

„Nýja hrognahúsið tryggir að hin vinsælu kynbættu laxahrogn fyrirtækisins verði að bestu gæðum svo og ein heilbrigðustu hrogn í heiminum í dag sem hægt er að afhenda allar vikur ársins út um allan heim.
Undanfarin misseri hefur áhugi á laxeldi á landi aukist gífurlega og erum við að búa okkur undir að geta annað eftirspurn á þeim markaði úti um allan heim,“ segir dr. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics Iceland.


Heimild: Mbl.is