Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi „Hérna er að rísa bara eitt flottasta hótel á landinu”

„Hérna er að rísa bara eitt flottasta hótel á landinu”

292
0
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Stefnt er á að opna rúmlega fimm þúsund fermetra lúxushótel á Þengilhöfða við Grenivík á næsta ári.
Byrjað var að leggja veg að hótelstæðinu í síðustu viku. Framkvæmdirnar kosta, að sögn eiganda, yfir milljarð króna.

Fjörtíu herbergi

Á Þengilhöfða, skammt vestan við Grenivík, stendur til að reisa fimm þúsund og fimm hundruð fermetra lúxushótel.

<>

Á hótelinu, sem heitir Höfði Lodge, verða 40 herbergi, veitingastaður, heilsurækt og ráðstefnusalir. Sérstök áhersla verður á afþreyingu á borð við þyrluskíðun og veiði.

Markhópurinn efnað fólk

Björgvin Björgvinsson, athafnamaður er einn þeirra sem stendur að verkefninu. Hann segir markhópinn vera efnað fólk.

„Bara mjög efnað fólk, út um allan heim. Þetta fólk kemur bæði með einkaþotum og líka bara venjulegum vélum til landsins en þetta er vel efnað fólk.

Hérna er að rísa bara eitt flottasta hótel á landinu, ef ekki bara það flottasta, hérna á Grenivík,” segir Björgvin.

Höfði Lodge. Mynd: grenivik.is

„Mjög dýrt og verður mjög flott”

Fjármögnun á verkefninu er, að sögn Björgvins lokið, og á dögunum hófust framkvæmdir við veg sem liggja á að byggingunni.

Auk Björgvins eru Jóhann Haukur Hafstein og breskur fjárfestir sem eiga standa að fjárfestingunni. „Ég tek það fram hérna að ég og Jóhann Haukur eigum 51% í þessu.”

Eitthvað hlýtur þetta að kosta?

„Já þetta er mjög dýrt og verður mjög flott, það er engin spurning.”

Getur þú eitthvað slegið á kostnað?

„Ég hef ekki viljað tjá mig um það, hvað þetta kostar en ég get allavegana sagt þér að þetta er meira en milljarður alla vega.”

Heimild: Ruv.is