Home Fréttir Í fréttum Annar áfangi endurbóta á Sundlaug Sauðárkróks hafinn

Annar áfangi endurbóta á Sundlaug Sauðárkróks hafinn

194
0
MYND: SKAGAFJÖRÐUR.IS

Sagt er frá því á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar að framkvæmdir við stækkun Sundlaugar Sauðárkróks hófust um miðjan janúar og luku Vinnuvélar Símonar við jarðvegsframkvæmdir nýlega.

<>

Um 2. áfanga er að ræða í endurbótum og stækkun Sundlaugar Sauðárkróks en 1. áfangi var formlega tekinn í notkun í lok maí sl.

Stefnt er að því að sundlaugin verði nýtt á Landsmóti UMFÍ sem haldið verður á Sauðárkróki í ágúst 2022. 

Þær framkvæmdir sem nú eru hafnar snúa að viðbyggingu setlauga og rennibrauta við núverandi sundlaug ásamt endurnýjun á hreinsikerfi og laugarkerfi.

Opið verkútboð fyrir byggingarframkvæmdinni verður haldið seinnihluta febrúarmánuðar og er áætlað að framkvæmdir við viðbygginguna hefjist strax í kjölfar útboðsins.

Áætlaður verktími á byggingarframkvæmdum er frá apríl 2021 til loka júní 2022.

Laugarsvæðið mun stækka til suðurs með setlaugum, kennslulaug og rennibrautum. Kennslulaugin verður 7,5 m x 7,5 m og mun nýtast í sundkennslu fyrir börn á grunnskólaaldri.

Setlaugar verða gerðar í kringum kennslulaugina ásamt lendingarsvæði fyrir rennibrautir. Byggður verður varanlegur kaldur pottur milli heitu pottanna tveggja sem nú eru við sundlaugina en notast hefur verið við plastkar hingað til.

Byggðar verða þrjár rennibrautir sem henta mismunandi aldurshópum. Sú stærsta verður um 11 metra há og verður turn hennar klæddur gleri, með led lýsingu ásamt því að vera upphitaður.

Sundlaugin sjálf mun fá upplyftingu og verður hún flísalögð ásamt því að laugarkerfi og hreinsikerfi verði endurnýjuð.

Á heimasíðu Svf. Skagafjarðar er hægt að sjá teikningar af sundlauginni eins og hún mun líta út >

Heimild: Feykir.is