Home Fréttir Í fréttum Hyggjast bjóða út verk að verðmæti 139 milljarða

Hyggjast bjóða út verk að verðmæti 139 milljarða

398
0
Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Áætlað er að varið verði 139 milljörðum til ýmissa framkvæmda af hálfu hins opinbera á árinu 2021. Þetta kom fram á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í gær þar sem ellefu fulltrúar kynntu þau verk sem fara eiga í útboð á árinu. Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Framkvæmdasýsla ríkisins boða viðamestu framkvæmdirnar á árinu.

Reykjavíkurborg hyggst bjóða út verk fyrir ríflega 28 milljarða króna á árinu að því er fram kom í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

<>

Hæst ber 2.7 milljarða uppbyggingu nýrra leikskóladeilda en auk þess er ætlunin að verja ríflega milljarði króna í endurnýjun og byggingu skólahúsnæðis. Rúmum 900 milljónum er svo ráðstafað til malbikunarframkvæmda í borginni.

Þverun Þorskafjarðar og hafnarframkvæmdir í Þorláksshöfn

Vegagerðin boðar að lagt verði í framkvæmdir sem kosta munu ríflega 27 milljarða króna, þar af eru 15,5 milljarðar ætlaðar til nýframkvæmda.

Stærsta einstaka verkið er breyting á vegstæði hringvegarins um Hornafjarðarfljót. Það er svokölluð PPP-framkvæmd eða samvinnuverkefni opinberra og einkaaðila og mun kosta um sex milljarða. Sú leið mun stytta hringveginn um tíu til tólf kílómetra.

Vegagerðin hyggst verja 2,2 milljörðum króna til framkvæmda við Suðurlandsveg en það er hluti samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019.

Jafnframt er áætlað að verja 3,5 milljörðum til áframhaldandi framkvæmda á veginum um Kjalarnes og allt að 3 milljörðum til þverunar Þorskafjarðar og sömu fjárhæð til Axarvegar sem er PPP-verkefni.

Á næstu þremur árum verður farið í endurbætur á höfninni í Þorlákshöfn og ætlað til þess 2.790 milljónum króna.

Viðbyggingar við flugstöðina

Alls hyggst Framkvæmdasýsla ríkisins bjóða út 91 verk á árinu 2021 og gert ráð fyrir að kostnaður við þau nemi um 22 milljörðum króna. Þarna eru á ferðinni verkefni á vegum ráðuneyta og Alþingis. Langhæstu fjárhæðinni verður varið til verka á vegum heilbrigðisráðuneytisins eða um 14 milljörðum.

Á síðasta ári boðaði Isavia 21 milljarðs króna framkvæmdir, en aðeins var farið í framkvæmdir fyrir 200 milljónir. Þar vega áhrif kórónuveirufaraldursins þungt. Á Útboðsþinginu nú gerir Isavia ráð fyrir 13,5 milljarða króna framkvæmdum á árinu 2021.

Ætlunin er að reisa tvær viðbyggingar við flugstöð Leifs Eiríkssonar, farið verður í tvö verk tengd flugakbrautum og önnur tvö sem snerta vegakerfið umhverfis flugvöllinn.

Hringbrautarverkefni nýs Landspítala (NLSH) boðar framkvæmdir fyrir 11 milljarða króna í ár samanborið við 12 milljarða króna í fyrra.

Það eru fimm verkhlutar, meðferðarkjarni, rannsóknahús, bílakjallari undir Sóleyjartorgi, bílastæða- og tæknihús, tengigangar og tengibrýr auk gatna, veitu- og lóðaframkvæmda.

Ekki er sopið kálið

Í samantekt SI segir að áætluð útboð klárist ekki endilega innan ársins og því segi útboðsgögn ekki alla söguna. Stundum verði ekki af útboðum eða að þau frestast og munur geti verið á fyrirhuguðum framkvæmdum og því sem loks sé ráðist í.

Á árinu 2020 fór til að mynda svo að heildarverðmæti framkvæmda var 29% minna en boðað var í upphafi árs, sem að einhverju leyti má kenna COVID-19.

Heimild: Ruv.is