
Prófanir hefjast í næstu viku í nýrri frystigeymslu Eskju á Eskifirði, en fullbúin kostar hún um hálfan annan milljarð króna.
Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, segir að um löngu tímabæra fjárfestingu sé að ræða, en frystar afurðir hafa verið geymdar í frystiklefum á nokkrum stöðum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þá eru hafnar framkvæmdir við stækkun á höfninni á Eskifirði, en mikil starfsemi fer fram á athafnasvæðinu innarlega í bænum.
Kostnaður við stækkunina er áætlaður um einn milljarður og eru verklok áætluð vorið 2022. Að sögn Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra í Fjarðabyggð, eru framkvæmdirnar meðal þeirra umfangsmestu í sveitarfélaginu í ár og á næsta ári.