Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi rís eftir 14 ára bið

Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi rís eftir 14 ára bið

267
0
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Framkvæmdir eru hafnar við þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi á Snæfellsnesi.
Verkið kostar 420 milljónir og þurfti að bjóða út að nýju eftir að öll tilboð fóru fram úr áætlun.

Samkeppni um hönnun miðstöðvarinnar var haldin 2006. Svo leið og beið og það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem Sigrún Magnúsdóttir þáverandi umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna. Full fjármögnun til verksins fékkst svo ekki fyrr en 2018.

<>

Jarðvegsvinna fór fram í fyrra og var framkvæmdin við bygginguna sjálfa boðin út skömmu síðar. Kostnaðaráætlun var 460 milljónir en lægsta boð var 160 milljónum hærra.

Þá var ákveðið að hafna öllum boðum og bæði hönnun og framkvæmdatilhögun tekin til endurskoðunar með tilliti til kostnaðar.

Boðið var út að nýju í vor og hafnaði verkið hjá Húsheild ehf. sem bauð 420 milljónir.

Runólfur Þór Jónsson er framkvæmdastjóri hjá Húsheild.

„Meiningin hjá okkur er að reyna að klára sökkla og undirstöður núna á þessu ári og þessar plötur sem eru berandi þarna úti og reyna að vinna stálvirkið sem er heilmikið hér að framanverðu líka.

En ég trúi því að aðalkrafturinn í byggingartímanum hjá okkur verði næsta vor og næsta sumar.“

Þjóðgarðsmiðstöðin er hönnuð og byggð í samræmi við alþjóðlega umhverfisvottunarkerfið BREEAM.

Kerfið er margþætt en fer meðal annars fram á að notuð séu umhverfisvæn byggingarefni og að úrgangur sé takmarkaður á byggingartíma og í rekstri.

Er þetta heilmikið verk?

„Já, þetta er töluvert verk. Þó að byggingin sé ekki mjög stór, hún er einhverjir 700 fermetrar, þá er þetta töluvert verk og gaman að taka þátt í því.“

Runólfur segir að fólk fagni því að skriður sé kominn á verkið. Verkloka er að vænta vorið 2022.

„Þá á þetta að vera komið, eða á ekkert heldur verður komið í gagnið.“

Heimild: Ruv.is