Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Endurgerð Faxabrautar hafin – stærsta einstaka framkvæmd Borgarverks á árinu

Endurgerð Faxabrautar hafin – stærsta einstaka framkvæmd Borgarverks á árinu

309
0
Verkið hófst í gærmorgun þegar byrjað var að leggja bráðabirgðaveg um svæðið. Ljósm. mm/skessuhorn.is

Framkvæmdir hófust við endurgerð Faxabrautar á Akranesi í gær og munu standa yfir næsta árið.

<>

Í verkinu felst hækkun götunnar, lagnavinna og frágangur, ásamt stækkun grjótvarnargarðsins.

Verkefnið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Akraneskaupstaðar og veitufyrirtækja.

Það er Borgarverk ehf. sem annast framkvæmdina. „Þetta er stórt verk, ætli þetta sé ekki stærsta verkið okkar á þessu ári,“ segir Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks, í samtali við Skessuhorn.

Hann á von á að milli tíu og fimmtán manns frá Borgarverki verði við vinnu á staðnum þegar mest lætur.

Hann vonast til að allt verði komið á fullt eftir um það bil þrjár vikur, en vinnan fari rólega af stað.

Verkið hófst á gerð bráðabirgðavegar um sementsreitinn í gær. Um hann verður umferð beint á meðan vinna við götuna og grjótgarðinn stendur yfir.

Óskar segir að ekki þurfi að grípa til lokana vegna framkvæmdanna fyrr en á næsta ári. „Næsta sumar verða einhverjar lokanir á sitthvorum enda götunnar, þegar við tökum svæðin sitt hvoru megin við þennan bráðabirgðaveg.

Þá fyrst mun fólk finna fyrir truflunum af framkvæmdunum,“ segir hann.

Stækkun grjótgarðsins er stærsti einstaki verkþáttur verksins, að sögn framkvæmdastjórans. Hún er jafnframt sá verkþáttur sem byrjað verður á.

„Nýi grjótgarðurinn verður mun stærri og veigameiri en sá sem nú er, en bæði gatan og grjótgarðurinn munu hækka dálítið,“ segir Óskar.

„Síðan komum við til með að rífa niður steyptan vegg og steypta girðingu. Steypan verður endurunnin og notuð í uppfyllingar á staðnum.

Við erum með græju til að brjóta steypu og brjóta járnið utan af, þannig að við munum endurnýta bæði járn og steypu sem til fellur,“ segir Óskar Sigvaldason að endingu.

Heimild: Skessuhorn.is