Home Fréttir Í fréttum Úthlutun fjölbýlishúsa í Kambalandi Hveragerði

Úthlutun fjölbýlishúsa í Kambalandi Hveragerði

206
0
Kambalandið er vestast í Hveragerði. Mynd: Eyþór H. Ólafsson

Úthlutun lóða í Kambalandi sem fram fór þann 7. október s.l. gekk vel og eru nú eingöngu 2 einbýlishúsalóðir lausar til umsóknar í þeim áfanga sem auglýstur var þá.

<>

Nú hefur bæjarstjórn samþykkt að lóðir fyrir lítil fjölbýlishús (fimm íbúðir í hverju) við Dalahraun, verði auglýstar án tafar með það fyrir augum að þeim verði úthlutað á fyrri fundi bæjarráðs í nóvember eða þann 7. nóvember n.k.

Til að stuðlað sé að samræmi og góðu yfirbragði byggðarinnar hefur bæjarstjórn samþykkt eftirfarandi forgangsröðun við úthlutun þessara húsa:

Þeir aðilar ganga fyrir sem sækja um allar 4 lóðirnar. Sæki fleiri en einn aðili um allar fjórar lóðirnar verður dregið á milli þeirra aðila í samræmi við reglur Hveragerðisbæjar þar um.

Sæki enginn aðili um allar 4 lóðirnar ganga þeir fyrir sem sækja um 2 lóðir. Sæki fleiri en einn aðili um tvær lóðir verður dregið á milli þeirra aðila í samræmi við reglur Hveragerðisbæjar þar um.

Sæki enginn aðili um allar eða helming lóðanna og fleiri en einn aðili um hverja lóð verður dregið á milli þeirra aðila í samræmi við reglur Hveragerðisbæjar þar um.

Kambaland er afskaplega fallegt svæði í útjaðri bæjarins þar sem útsýni er með besta móti. Þar á án vafa eftir að myndast fallegt og gott hverfi í allra nánustu framtíð og ekki skemmir fyrir að nær höfuðborgarsvæðinu er ekki hægt að komast í þéttbýli austan fjalls.

Það var því mikið og gott skref sem stigið var þegar að bæjarfélagið eignaðist stærstan hluta lóðanna í Kambalandi og tryggði Hveragerðisbæ enn meira svæði til uppbyggingar.

Bæjarfélagið þurfti þó að leggja í umtalsverðan kostnað til að eignast Kambalandið og því er hér lagt til við bæjarráð að samþykkt verði að nýta heimild 6. greinar samþykktar um byggingagjöld í Hveragerði til að leggja á byggingaréttargjald og að byggingarréttargjald verði 30% á raðhús og fjölbýlishús í hverfinu.

Heimild: Hveragerdi.is