Home Fréttir Í fréttum Fjölmörg brúarverkefni boðin út á næstunni

Fjölmörg brúarverkefni boðin út á næstunni

248
0
Mynd: Vegagerðin

Framkvæmdadeild Vegagerðarinnar hélt þriðjudaginn 8. október kynningarfund fyrir verktaka og aðra áhugasama um fyrirhuguð brúarverkefni á næstu mánuðum.

<>

 

Mynd: Vegagerðin

Vel var mætt og greinilegur áhugi fyrir hendi á þessum verkefnum þó þátttaka í útboði nokkurra brúa í vor hafi verið dræm.

Enn eru 36 einbreiðar brýr á Hringveginum, lang flestar á Suður- og Suðausturlandi. Einnig eru þó nokkrar einbreiðar brýr utan Hringvegar þar sem árdagsumferð (ÁDU) er meiri en 600 bílar.

Mynd: Vegagerðin

 

Umferð um brýr landsins hefur aukist mjög síðustu ár og því hefur fjölgað þeim einbreiðu brúm sem þurfa að bera mikla umferð eins og sést á meðfylgjandi töflu.

Þó ekki hafi unnist nægilega hratt að útrýma einbreiðum brúm á Hringvegi 1 hefur þó mikið áunnist á síðustu þrjátíu árum. Árið 1990 voru einbreiðar brýr á Hringvegi 1 hátt í 140 talsins. Þeim fækkaði hratt og voru orðnar um 60 talsins í kringum 2006 og 42 árið 2011.

Síðan hefur hægst mjög á slíkum framkvæmdum og aðeins verið breikkaðar eða byggðar nýjar brýr í stað 6 einbreiðra brúa á átta árum.. En nú stendur til að gera gangskör í fækkun einbreiðra brúa og fjölmörg brúarverkefni framundan.

Árið 2019 voru byggðar 7 brýr í stað einbreiðra brúa. Þetta voru brýr í Berufjarðarbotni, yfir Hofsá í Arnarfirði, yfir Mjólká í Arnarfirði, brú á Eldvatn og yfir Loftsstaðaá, einnig brú yfir Breiðdalsá og Tjarnará. Til stóð að hefja framkvæmdir við fimm brýr til viðbótar á árinu en ekki bárust tilboð í verkefnin í vor.

 

Mynd: Vegagerðin

Brúarverkefni boðin út á næstunni
Á næstu 30 dögum verður farið í útboð á fjórum brúm á Hringvegi 1. Þetta eru brú á Steinavötn í Suðursveit sem er 102 m löng, brú á Fellsá í Suðursveit sem er 46 metrar, Brú á Kvíá í Öræfum sem er 38 m löng og brú á Brunná austan Kirkjubæjarklausturs sem er 24 m.

Á næsta ári eru svo fyrirhuguð tvö útboð til viðbótar. Það er 160 m löng brú á Jökulsá á Sólheimasandi og brú á Hverfisfljót.

Fjölmörg önnur verkefni eru í undirbúningi sem tengjast einbreiðum brúm á stofnvegum. Á Bíldudalsvegi er það brú á Botnsá, á Vestfjarðavegi í Önundarfirði er það brú á Bjarnadalsá, á Skrið- og Breiðdalsvegi er það brú á Gilsá á Völlum og á Norðausturvegi er það brú á Köldukvíslargil sem er eina einbreiða brúin á leiðinni frá Húsavík að Ásbyrgi.

Heimild: Vegagerðin