Lokaáfangi Dettifossvegar var boðinn út í vor og ætlunin er að honum verði lokið 2021.
„Framkvæmdir ganga nokkuð vel og verktaki hefur verið að auka afköstin með því að bæta við tækjum.

Einnig er hann kominn með undirverktaka til að vinna í veginum niður í Vesturdal, sem er heppilegt því svæðinu þar var lokað fyrir ferðamenn á þessum tíma,“ segir Haukur Jónsson deildarstjóri umsjónardeildar á Norðursvæði Vegagerðarinnar.
Hann segir að veðurfar í haust muni ráða því hversu langt verkið komist á árinu.
Tilboð í Dettifossveg voru opnuð 12. júní.
Aðeins tvö tilboð bárust í verkið og ákveðið var að semja við G. Hjálmarsson hf. sem átti lægra tilboðið upp á 901,6 m.kr.
Ákvörðunin var kærð af Þ.S verktökum ehf. en niðurstaða kærunefndar útboðsmála var að heimila samning við G. Hjálmarsson hf. og var samningur undirritaður 25. júlí.

Framkvæmdir fóru af stað fyrri hlutann í ágúst og er nú unnið á fullum krafti við kaflann Vesturdalur – Ásheiði og einnig er verið að byrja á veginum niður í Vesturdal. Unnið svo lengi sem veður leyfir.
Helstu verkliðir framkvæmdarinnar:
• Dettifossvegur:
– Hólmatunguvegur – Vesturdalur
– Vesturdalur – Ásheiði 4,2 km
•Hólmatunguvegur 2,7 km og áningastaður
• Vesturdalsvegur 1,5 km og plan
• Vegur og áningastaður Langavatnshöfða 1,5 km
• Merkingar, girðingar, námufrágangur, frágangur gamla vegarins o.fl.
Heimild: Vegagerðin