Home Fréttir Í fréttum Leikskólinn á Þórshöfn formlega tekinn í notkun

Leikskólinn á Þórshöfn formlega tekinn í notkun

178
0
Mynd: Lauganesbyggð

Fjölmenni var við formlega opnum nýs húsnæðis fyrir leikskólann Barnaból á Þórshöfn sem fór fram mánudaginn 7. október sl. í húsnæði skólans að Miðholti 6 á Þórshöfn.

<>

Að lokinni húsblessun sr. Jarþrúðar Árnadóttur nýs sóknarprests klipptu tveir reyndustu leikskólakennarar, ásamt þremur börnum við skólann, á borða og með því var hið nýja hús formlega tekið í notkun.

Í stuttu máli, sagði Halldóra J. Friðbergsdóttir leikskólastjóra í reynd breytti þetta nýja húsnæði öllu í starfsemi skólans, svo mikil væri breytingin. Aðstæður hafa með tilkomu þessa nýja húsnæðis gjörbreyst að sögn Halldóru frá því að Barnaheimili Þórshafnar hóf störf í febrúar 1977 í kjallaranum á félagsheimilinu Þórsveri.

Ný bygging var tekin í notkun fyrir 36 árum eða í október 1983 og var skólinn þá tvísetinn og börnin komu með nesti með sér að heiman, þar sem enginn matur var framreiddur þá.

Í ávarpi sínu við opnunina sagði Halldóra m.a. þetta:

Gott leikskólahúsnæði er mjög mikilvægt af mörgum ástæðum, hér erum við (börn og kennarar) allt að 8 og hálfan tíma á dag eða 170 klukkutíma á mánuði. Okkar markmið er og á alltaf að vera að öllum líði vel í leikskólanum. Við þurfum að hafa góða kennara og starfsfólk sem vinnur sína vinnu af fagmennsku, heilindum og gleði en við höfum verið svo lánsöm að hafa haft það og vil ég þakka öllum sem hafa unnið frábært starf við mjög erfiðar aðstæður síðustu ár og jafnvel áratugi.

Skólanum bárust veglegar gjafir frá Foreldrafélagi barna við leikskólann, Kvenfélagi Þórshafnar, Kvenfélagi Þistilfjarðar og Verkalýðsfélagi Þórshafnar.

Nýtt húsnæði
Hin nýja bygging kemur í stað tveggja eldri húsa sem skólinn var starfræktur í. Annars vegar var eldri deild skólans í íbúðarhúsi sem er í næsta nágrenni við hið nýja hús.

Yngri deild skólans var í húsi sem að mestu leyti var rifið og hið nýja er byggt á grunni þess.
Hið nýja húsnæði var hannað með það fyrir augum að vera sem þægilegast og best fyrir börnin sem þar eru og skapa sem bestu starfskilyrði fyrir starfsfólk. Hitakerfi hússins er sérstaklega umhverfisvænt „varmadælukerfi“ og með fullkomnu hitastýringarkerfi sem tryggir sem besta líðan þeirra sem þar dvelja og vinna.

Lýsing er hönnuð með það fyrir augum að nýta rafmagnið sem best.
Skólinn er miðsvæðis á Þórshöfn og því í göngufæri fyrir flest börn og foreldra. Nýgerður er göngustígur í báðar áttir frá skólanum sem auðveldar öllum og styttir leið í skólann.

Hönnun skólans og staðsetning er því í samræmi við stefnu skólans og sveitarfélagsins í heild að gera umhverfi í senn nútímalegt og eins vistvænt og kostur er.

Í húsinu er rými fyrir alls 40 til 45 börn, en nú eru þar 22 börn við leikskólann. Leikskólinn er hannaður þannig að auðvelt er að stækka hann og er starfsmannaaðstaða ætluð fyrir 55 barna þriggja deilda skóla.

Við skólann starfa nú fimm manns á deildum og einn starfsmaður í eldhúsi og við þrif auk leikskólastjóra.

Skólinn er samtals 418 m2 að stærð, skiptist í tvær deildir, yngri og eldri, skrifstofu- og vinnuaðstöðu starfsfólks, sal, eldhús og annað vinnu- og geymslurými.

Við húsið er sérstök vagna- og kerruskýli þar sem bæði er hægt að geyma kerrur og vagna og yngstu börnin geta sofið ef svo ber undir.

Meðal helstu vertaka og hönnuða sem að framkvæmdinni komu:
Hönnun: Batteríið arkitektar
Jarðvinna o.fl.: BJ vinnuvélar, Ístrukkur Kópaskeri
Húsbygging: MVA Egilsstöðum
Rafmagn: Rafeyri
Eftirlit: Efla, verkfræðistofa
Málningarvinna: Ingólfur Bragi Arason
Frágangur lóðar: Garðvík

Alls komu á þriðja tug verktaka og annarra aðila að verkinu með einum eða öðrum hætti.

Heimild: Lauganesbyggð