Helstu skuldabréfaeigendur fasteignafélagsins Upphafs, sem er í eigu sjóðsins Novus sem er í stýringu GAMMA, hafa gefið vilyrði um leggja félaginu til aukið fjármagn með kaupum á forgangsskuldabréfi að fjárhæð samtals einn milljarður króna.
Gert er ráð fyrir því að gengið verði formlega frá skuldabréfaútgáfunni á allra næstu dögum, líklega strax á morgun, samkvæmt heimildum Markaðarins.
Sú viðbótarfjármögnun er nauðsynleg til að leysa lausafjárvanda Upphafs og forða fasteignafélaginu frá gjaldþroti.
Á meðal stærstu skuldabréfaeigenda Upphafs, sem gaf út 2,7 milljarða króna skuldabréf til tveggja ára í júní síðastliðnum, eru fjárfestingafélagið Stoðir, tryggingafélagið TM og félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleigenda Ísfélags Vestmannaeyja.
Á fundi með skuldabréfaeigendum, sem haldin var í húsakynnum GAMMA í Garðastræti og hófst klukkan ellefu í morgun, samþykktu þeir tilteknar breytingar á skilmálum skuldabréfanna, samkvæmt heimildum Markaðarins, en þær voru á meðal forsenda þess að hægt sé í kjölfarið að ljúka viðbótarfjármögnun upp á einn milljarð.
Samþykki að lágmarki 90 prósent skuldabréfaeigenda þurfti fyrir breytingunum.
Þær breytingar lúta meðal annars að því að fastir vextir lækki með afturvirkum hætti úr 15-16,5 prósentum niður í 6 prósent en verði jafnframt tengdir afkomu fasteignafélagsins.
Skuldabréfaeigendum verður veittur réttur á vaxtaauka sem nemur allt að muninum á 6 prósenta vöxtum og 15-16,5 prósenta vöxtum, af útistandandi höfuðstól skuldabréfanna á hverjum tíma, en greiðsla vaxtaauka verður háð afkomu félagsins.
Þá verður gjalddagi höfuðstólsins færður frá 30. maí 2021 til 30. maí 2022 og verður það jafnframt eini vaxtagjalddaginn.
Í bréfi til sjóðsfélaga NOVUS í síðustu viku voru þeir upplýstir um að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins þá væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða, nú aðeins talið vera um 42 milljónir.
Þá var gengi sjóðsins, sem fór hæst í 250 í árslok 2017, lækkað niður í 2 en það bráðabirgðagengi byggir á því að áform um viðbótarfjármögnun gangi eftir.
Sú fjármögnun felur í sér að gefin verða út forgangsskuldabréf sem verða framar í kröfuröð en skuldabréf í fyrri skuldabréfaútgáfunni.
Bréfin munu bera 12 prósenta fasta vexti og lokagjalddagi er tveimur árum frá útgáfu. Núverandi skuldabréfaeigendur hafa forgang að kaupum í forgangsskuldabréfunum.
Í skýringum til sjóðsfélaga á endurmetnu virði Novus-sjóðsins hefur komið fram að raunveruleg framvinda margra verkefna Upphafs, sem hefur staðið í framkvæmdum og sölu á yfir 400 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, hafi reynst ofmetin.
Þá hefur kostnaður við framkvæmdir á árinu verið langt yfir áætlunum auk þess sem fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins sem hækkaði verulega við útgáfu fyrrnefnds skuldabréfs að fjárhæð 2,7 milljarðar í júní.
Heimild: Frettabladid.is