Home Fréttir Í fréttum Of­­fram­­boð af fast­­eign­­um gæti skap­ast

Of­­fram­­boð af fast­­eign­­um gæti skap­ast

140
0
Mynd: Fréttablaðið/Anton Brink

Aðstoðarseðlabankastjóri segir að svigrúm banka til að greiða arð umfram það sem rekja má til hagnaðar sé lítið á næstunni án breytinga á samsetningu og stærð efnahagsreikninga þeirra.

<>

Vísbendingar eru um að velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hafi dregist saman og að sölutími hafi lengst en á sama tíma hefur framboð aukist.

Samhliða fjölgun nýbygginga hefur dregið úr skammtímaútleigu íbúða á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna. Offramboð og lækkun nafnverðs gætu fylgt í kjölfarið.

Í því felst áhætta fyrir fjármálakerfið. Þetta segir Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri í formála að nýju riti Fjármálastöðugleika.

 

Ólíklegt að nýleg áföll raski fjármálastöðugleika
„Lánastofnanir þurfa að búa sig undir að nýbyggingar seljist hægt, veðsetningarhlutföll fasteignaveðlána hækki og útlánatöp vegna íbúðarhúsnæðis aukist,“ segir hún og nefnir að tengsl séu á milli stöðu ferðaþjónustu og áhættu á íbúðar- og atvinnuhúsnæðismörkuðum.

Rannveig segir að við núverandi aðstæður sé ólíklegt að nýleg áföll muni raska stöðugleika fjármálakerfisins á næstu misserum, að því gefnu að alþjóðlegar efnahagshorfur versni ekki mikið og fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt sinn.

Í ár hefur virðisbreyting útlána haft mest áhrif á breytingu á afkomu banka frá fyrra ári. „Útlit er fyrir að virðisbreytingar muni hafa talsverð neikvæð áhrif á rekstrarafkomu þeirra í ár en undafarin ár hafa áhrif virðisbreytinga verið jákvæð.

Áhrif áfalla ársins á virðisrýrnun eru enn að einhverju leyti óviss,“ segir Rannveig.

Hún segir að lækkandi vaxtastig gæti einnig haft áhrif á rekstrarhorfur bankanna. Þeir gætu þurft að draga úr vaxtamun þar sem vextir á óbundnum innlánum séu nálægt núlli og því takmarkað svigrúm til að miðla frekari vaxtalækkunum á skuldahliðina.

„Minni vaxtamunur myndi að öðru óbreyttu draga úr hagnaði þeirra og arðsemi,“ segir Rannveig.

Svigrúm banka til arðgreiðslna umfram hagnað er lítið
Eiginfjárstaða bankanna er yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins. Rannveig segir að svigrúm þeirra til að greiða arð umfram það sem rekja má til hagnaðar sé lítið á næstunni án breytinga á samsetningu og stærð efnahagsreikninga þeirra.

Að teknu tilliti til hækkunar sveiflujöfnunarauka í febrúar á næsta ári og svokallaðs stjórnendaauka sem bankarnir setja sér sjálfir, sé svigrúm til frekari lækkunar eiginfjárhlutfalla orðið mjög takmarkað.

„Bankarnir hafa einnig breytt eiginfjárskipan sinni með útgáfu víkjandi skuldabréfa sem tilheyra eiginfjárþætti 2 á síðastliðnum árum en svigrúm til frekari útgáfu af því tagi er orðið takmarkað.

Þeir hafa möguleika á útgáfu sambærilegra skuldabréfa sem tilheyra eiginfjárþætti 1 en slíkar útgáfur hafa ekki verið taldar fýsilegar enn,“ segir hún.

Heimild: Frettabladid.is