Home Fréttir Í fréttum Niðurrifi lokið á sementsreitnum á Akranesi

Niðurrifi lokið á sementsreitnum á Akranesi

247
0
Mynd: Magnús Magnússon - Skessuhorn

Lokið hefur verið við niðurrif á öllum mannvirkjum Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og búið er að ganga frá svæðinu. Heildarkostnaður við niðurrifið reynist um 150 milljónum króna undir áætlun.

<>

Skessuhorn greinir frá þessu og hefur eftir Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra að kostnaður við vinnuna verði um 290 milljónir króna, samanborið við kostnaðaráætlun bæjaryfirvalda upp á 438 milljónir.

Akraneskaupstaður var verkkaupi að niðurrifinu en fyrirtækið Work north sá um vinnuna.

Nú hefur verið gengið frá svæðinu, það sléttað og sáð í það, að því er fram kemur í Skessuhorni. Þar segir jafnframt að nú þegar sé farið að sjást í græn grös.

Uppgröftur frá byggingarlóðum í nýjum hverfum var notaður sem yfirlag.

Mynd: Einar Rafnsson – RÚV/Landinn

Byrjað var að rífa niður Sementsverksmiðjuna í lok árs 2017. Reyndar þurfti þrjár tilraunir til að taka niður sílóin, en síðan hafa mannvirkin verið rifin niður eitt af öðru.

Strompurinn, sem hefur verið eitt helsta kennileiti Akraness í hálfa öld, var loks tekinn í mars. Þetta svæði, í hjarta bæjarins, fær nýjan tilgang á næstu árum enda stendur til að stækka miðbæinn og byggja þar íbúðarhús.

Mynd: Aðsend mynd – Akraneskaupstaður

Heimild: Ruv.is