Fyrsta framkvæmdaleyfið af þremur vegna Kröflulínu þrjú hefur verið gefið út. Vonast er til að línan verði komin í rekstur fyrir lok næsta árs.
Kröflulína 3 á að liggja frá Kröfluvirkjun austur í Fljótsdalsstöð, um 122 kílómetra leið. Undirbúningur hefur staðið í nokkur ár, umhverfismati lauk 2017 og hafa náðst samningar við landeigendur.
Línan liggur um þrjú sveitarfélög, Skútustaðahrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp sem þurftu að breyta aðalskipulagi og gefa út framkvæmdaleyfi. Þetta hefur tekið lengri tíma en stjórnendur Landsnets vonuðu og framkvæmdum hefur seinkað.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur nú samþykkt að veita framkvæmdaleyfi til Landsnets vegna 67 kílómetra hluta línunnar. Leyfið nær til uppsetningar mastra, slóðagerðar og efnistöku og er veitt með nokkrum skilyrðum, þar á meðal að votlendi verði endurheimt, grædd verði upp svæði sem raskast og að áflug verði vaktað.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að verkefnið þokist áfram. „Nú bíðum við bara eftir útgáfu framkvæmdaleyfa frá Fljótsdalshreppi og Skútustaðahreppi.
Hvenær nákvæmlega það verður veit ég ekki alveg á þessu stigi en vonandi verður ekki mjög langt í það,“ segir Steinunn.
Framkvæmdir hefjast ekki fyrr en öll leyfi liggja fyrir, en undirbúningur er í fullum gangi. „Við höfum nú þegar boðið út og opnað tilboð í stálmöstur og efni í forsteyptar undirstöður.
Núna í febrúar buðum við út jarðvinnuna og framundan er að bjóða út reisingu mastra.
Ef allt gengur eftir þá stefnum við á að taka Kröflulínu 3 í rekstur fyrir árslok 2020,“ segir Steinunn.
Hægt er að kæra framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu auglýsingar, það er um miðjan apríl.
Heimild: Ruv.is