Fasteignafélagið Fornubúðir 5 ehf, sem ætlar að reisa nýjar höfuðstöðvar Hafrannsóknarstofnunar í Hafnarfirði, segist hafa orðið af hundrað milljónum vegna tafa sem hafa orðið á framkvæmdinni.
Félagið hefur óskað eftir því við Hafnarfjarðarbæ að bæjaryfirvöld gefi eftir sem nemur 50 prósent af þeim gatnagerðargjöldum sem reiknuð hafi verið til vegna framkvæmda á lóðinni.
Þetta kemur fram í bréfi sem tekið var fyrir á fundi hafnarstjórnar í morgun. Hafnarstjórn fól Lúðvík Geirssyni, hafnarstjóra, að skoða málið og afla lögfræðiálits.
Í bréfi Jóns Rúnars Halldórssonar, framkvæmdastjóra Fornubúða 5 ehf, segir að verulegar tafir hafi orðið á framkvæmdinni.
Þær megi meðal annars rekja til „vanreifaðrar niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála“ og að einhverju leyti formgalla á afgreiðslu skipulagsyfirvalda í Hafnarfirði.
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála felldi í júlí á síðasta ári úr gildi leyfi til að byggja höfuðstöðvarnar. Hún komst að þeirri niðurstöðu að skipulagsbreyting sem bæjarstjórn hafði samþykkt væri á skjön við bæði skilgreindan notkunarflokk svæðisins og skilmála gildandi aðalskipulags bæjarins.
Jón Rúnar segir þetta hafa tafið verkið í hálft ár og fjárhagslegur skaði nemi vel yfir hundrað milljónum, helst í töpuðum leigutekjum. Ekki sjái fyrir endann á þessum töfum „en við vonum það besta.“
Jón Rúnar bendir líka á að það hafi verið fasteignafélagið sem hafi ráðist í að fá Hafró til bæjarins og att þar kappi við Kópavog.
„Það er ekki sjálfgefið að ná opinberum stofnunum til okkar í Hafnarfjörð og þarf þar ýmislegt að koma til.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Fornubúðir 5 óska eftir afslætti á gatnagerðargjöldum vegna höfuðstöðva Hafró.
Í mars á síðasta ári óskaði félagið eftir 50 prósent afslætti á þessum gjöldum í ljósi þess hversu miklir hagsmunir það væru fyrir sveitarfélagið að fá stofnun eins og Hafró. Þá mælti hafnarstjórn ekki með því að vísa erindinu áfram til bæjarstjórnar.
Heimild: Ruv.is