Home Fréttir Í fréttum Hús rís í Ingólfsfirði eftir sjötíu ára hlé

Hús rís í Ingólfsfirði eftir sjötíu ára hlé

200
0
Mynd: Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Eftir áratuga hlé hefur kyrrðin í Ingólfsfirði á Ströndum verið rofin með hamarshöggum og vélarhljóðum. Fyrsta íbúðarhúsið í yfir sjötíu ár rís nú á Eyri en þar var síldarverksmiðja rekin fram yfir stríð. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

<>

Litla þorpið á Eyri við Ingólfsfjörð er frægast fyrir síldarverksmiðjuna sem byggð var á árunum 1943 til 1944, tíu árum á eftir verksmiðjunni í Djúpuvík, en starfseminni í Ingólfsfirði lauk árið 1951. Áratug síðar hófst rækjuútgerð þaðan með rækjuvinnslu en eftir að hún hætti árið 1971 lagðist þorpið í dvala.

En nú heyrast aftur hamarshögg. Þar er verið að byggja hús, það fyrsta sem rís á Eyri í meira en sjötíu ár. Að smíðinni stendur Guðjón Egill Ingólfsson verkfræðingur frá Ingólfsfirði. Guðjón segir föður sinn hafa byggt hús árið 1946 og frændi hans hafi byggt hús ári áður, 1945.

Guðjón Egill Ingólfsson verkfræðingur byggir nýja húsið í Ingólfsfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Gamla íbúðarhúsið á Eyri er orðið of lítið fyrir stórfjölskylduna, sem sækir þangað til orlofsdvalar á sumrin, og segist Guðjón með húsbyggingunni vera að rýma til fyrir systkini sín.

„Þannig að ég sé ekki fyrir þeim í fjölskylduhúsinu þegar þau eru að koma.“

-Þannig að þetta er hugsað sem sumarbústaður?

„Já, þetta er svona sumarhús fyrir mig hérna á sumrin.“

Séð út Ingólfsfjörð. Gamla síldarverksmiðjan í forgrunni.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Guðjón fæddist í Ingólfsfirði árið 1956 og bjó þar fram á unglingsár. Hann gerði húsið fokhelt fyrir veturinn og stefnir að því að klára það næsta sumar. Hann telur þessa húsbyggingu þó ekki merki þess að byggðaþróun sé að snúast við í Árneshreppi.

„Þó að heilsársbúseta í bili virðist kannski vera að leggjast af þá á þessi sveit, svona á annan hátt, mikla framtíð fyrir sér, það er engin spurning,“ segir Guðjón.

Heimild: Visir.is