Home Fréttir Í fréttum Langþráðar vegbætur hafnar í Njarðvíkurskriðum

Langþráðar vegbætur hafnar í Njarðvíkurskriðum

180
0
Mynd: Ruv.is
Oddviti Borgarfjarðarhrepps tók í dag formlega fyrstu skóflustunguna að nýjum langþráðum vegi um Njarðvíkurskriður til Borgarfjarðar eystra. Miklar tafir urðu á upphafi verksins en gamli vegurinn var holóttur og háskalegur utan í bröttum skriðunum.

„Ég er búinn að bíða eftir þessu í áratugi. Berjast fyrir þessu í á þriðja áratug og nú er þetta loksins hafið,“ sagði Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, þegar hann steig út úr gröfunni í dag en þar eru framkvæmdir hafnar við að moka niður horn, fylla í Miðgil og Naddagil að hluta og rétta úr veginum.

<>

„Samgöngubótin felst í því að taka af þessar blindhæðir, minnka þær og beygjurnar en vegurinn verður nánast á sama stað þannig lagað. Síðan er klætt á hann og síðan á að koma hér vegrið með fram þessu öllu. Það er samkvæmt stöðlum þannig að þetta verður mikil samgöngubót,“ segir Jakob.

Ekki var hægt að hefja framkvæmdir á tilsettum tíma því Skipulagsstofnun ógilti framkvæmdaleyfi, þar sem vantaði bæði fornleifakönnun og ákvörðun um hvort framkvæmdin væri háð umhverfismati. Nú liggur allt slíkt fyrir og eru framkvæmdir komnar á fullt.

Naddagil heitir eftir óvættinum Nadda og viðbúið er að færa þurfi Naddakrossinn með áletrun sem verndar vegfarendur.

„Þeir munu heyra í honum þá verktakarnir ef að hann eitthvað lætur á sér kræla því að Naddi er dregið af því að hann nuddaði saman steinum. Nei, ég held að hann verði bara með okkur í þessu, ég trúi ekki öðru. Ég held að hann fari ekkert að rísa upp núna,“ segir Jakob.

Héraðsverk sem leggur nýja veginn um Njarðvíkurskriður gerir ráð fyrir að hann verði tilbúinn í september á næsta ári.

Frekari vegbætur eru áformaðar til Borgarfjarðar eystra en á áætlun er að klæða veginn um Vatnsskarð á næsta ári.

Heimild: Ruv.is