Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir fyrir 150 milljarða til skoðunar

Framkvæmdir fyrir 150 milljarða til skoðunar

307
0
Nýja Ölfusár­brúin
Til skoðunar er innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis að stofna eitt eða eða fleiri félög utan um stórar framkvæmdir í samgöngumálum. Vegatollar og önnur gjöld yrðu innheimt af þeim sem nota mannvirkin en óljóst er á þessu stigi hvort að þau gjöld standi alfarið undir kostnaði eða hvort ríki leggi einnig eitthvað til. Hugmyndin er að fara í framkvæmdir fyrir 100 til 150 milljarða með þessum hætti á næstu fimm árum.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir í samtali við fréttastofu að ef af verði, þá verði félögin með svipuðu sniði og Spölur sem rekur Hvalfjarðargöngin.

<>

Verið er að skoða hvort félögin verði í eigu ríkisins eða aðrir komi einnig að þeim. „Áhugasamir aðilar hafa sýnt þessu áhuga. Það verður án efa ekki vandamál að finna rétta aðila í það en við þurfum hins vegar að finna réttu leiðina,“ segir hann. Samþykki Alþingis þyrfti fyrir þessari leið í samgöngumálum. Sigurður Ingi á von á því að undirbúningi ljúki í haust.

Margar brýnar framkvæmdir bíða í samgöngumálum og segir ráðherra að þó að verið sé að setja verulega fjármuni í málaflokkinn á næstu árum dugi það skammt. Því sé verið að skoða þessa leið, að stofna félög um framkvæmdir og taka upp gjaldtöku. Hugmyndin er að ráðast í þessar framkvæmdir á leiðum á hringveginum þar sem fólk hefur einnig valkost um að aka aðrar leiðir og sé því ekki bundið af því að greiða gjöldin. „Við getum verið að tala um verulegar framkvæmdir, það er að segja fyrir 100 milljarða, jafnvel 150 milljarða, sem við gætum farið í á næstu árum samhliða stórauknu fjármagni í fjármála- og samgönguáætlun til næstu fimm ára,“ segir hann.

Meðal þeirra framkvæmda sem til greina kemur að stofna félag um er ný brú yfir Ölfusá, nýr vegur um Mýrdal og göng í gegnum Reynisfjall sem myndi færa umferð frá byggðinni í Vík. Sigurður segir einnig hugmyndir um að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, eins og Sundabraut, verði fjármagnaðar með þessum hætti.

Heimild: Ruv.is