Home Fréttir Í fréttum Gagnaveita Reykjavíkur mun ljúka ljósleiðaravæðingu höfuðborgarinnar fyrir lok þessa árs

Gagnaveita Reykjavíkur mun ljúka ljósleiðaravæðingu höfuðborgarinnar fyrir lok þessa árs

147
0
Mynd: skessuhorn.is

Gagnaveita Reykjavíkur mun ljúka ljósleiðaravæðingu höfuðborgarinnar fyrir lok þessa árs. Þá verða liðlega 70 þúsund heimili á öllu athafnasvæði Gagnaveitunnar komin með möguleika á að nýta sér kosti Ljósleiðarans, að því er segir í fréttatilkynningu frá Gagnaveitunni. „Fjögur sveitarfélög eru nú þegar ljósleiðaravædd að fullu: Seltjarnarnes, Akranes, Hella og Hvolsvöllur. Síðar á árinu bætist Reykjavík við og einnig Hveragerði og Ölfus,“ segir fréttatilkynningunni.

<>

Nær 33 þúsund heimili eru fulltengd nú þegar. Það þýðir að Ljósleiðarinn er tengdur innanhúss og nothæfur án frekari aðgerða. Átta af hverjum tíu þeirra sem eru fulltengdir eru að nota Ljósleiðarann, sem er mjög hátt hlutfall á alþjóðavísu. Fleiri stór skref verða stigin í ljósleiðaravæðingu á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Fyrir lok árs 2015 er stefnt að því að um 2/3 heimila í Kópavogi hafi möguleika á að tengjast Ljósleiðaranum og um 1/3 heimila í Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ.

Grunnstoðirnar sem byggðar voru upp nýtast núna til þess að veita alls kyns þjónustu í gegnum netið um ókomna framtíð, segir í tilkynningunni. Nú þegar er Ísland á meðal tíu efstu þjóða Evrópu í dreifingu á ljósleiðara með 55% heimila sem hafa aðgengi að öflugum ljósleiðara. „Ljósleiðarinn er nauðsynlegur fyrir þá byltingu sem framundan er með Interneti alls staðar og snjöllu samfélagi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Með ljósleiðara Gagnaveitunnar ná viðskiptavinir hröðustu tengingu sem býðst, með 100 Mb/s-400 mb/s hraða bæði í niðurhalshraða og upphalshraða. Þjónusta sjónvarpsveitna og miðlun myndefnis af öllu tagi kallar á öflugra og hraðara netsamband. Gagnaveita Reykjavíkur er í stakk búin til að svara þessu kalli og horfir enn lengra fram á veginn í þessari tæknivæðingu.

„Viðskiptavinir okkar kalla sífellt eftir meiri hraða þar sem þörfin til að miðla efni í báðar áttir hefur aukist með tilkomu netsjónvarpsveitna, samfélagsmiðla og annarrar miðlunar efnis. Þannig er fyrirtækið að fylgja eftir þróun sem á sér stað hjá framsæknustu fjarskiptafyrirtækjum heims eins og t.d. Google í Bandaríkjunum. Ljósleiðarinn er sú tækni sem þarf til,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.

Heimild: Kjarninn.is