Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir hafnar við sjóböðin á Húsavík

Framkvæmdir hafnar við sjóböðin á Húsavík

155
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hafnar eru framkvæmdir við gerð sjóbaða á Húsavíkurhöfða. Þar verður hægt að taka á móti hundrað þúsund gestum á ári, sem geta baðað sig upp úr heitum sjó sér til heilsubótar. Áætlaður byggingakostnaður er á sjötta hundrað milljónir króna.

Mannvirki fyrir sjóböð á Húsavíkurhöfða hafa verið í undurbúningi frá 2011, en 2014 sótti félagið Sjóböð ehf. um lóð efst á höfðanum. Þar eru framkvæmdir nú hafnar við 600 fermetra hús með veitingastað og búningsklefum og 500 fermetra útisvæði þar sem verða baðlaugar með tæplega 40 gráðu heitum sjó.

Húsvíkingar hafa lengi baðað sig í heitum sjó

Það eru mörg ár síðan gömlu ostakari var komið fyrir uppi á Húsavíkurhöfða og þar hafa Húsvíkingar því lengi baðað sig upp úr heitum sjó, sér til heilsubótar. „Nýtingin á vatninu er með þeim gæðum að þetta er heilsusamlegt, að því leytinu til að þeir sem hafa verið með húðkvilla hafa nýtt sér þetta og fundið frið í eigin skinni,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, stjórnarformaður Sjóbaða ehf.

Mynd með færslu
 Mynd: Basalt arkitektar

 

Geta tekið á móti 100.000 gestum á ári

Vatnið kemur úr tveimur borholum sem þegar eru til staðar, önnur er í notkun við ostakarið og hin er við Húsavíkurhöfn.  „Framkvæmdin er á bilinu 5-600 milljónir í þessum áfanga og mun geta tekið hér um hundrað þúsund geti á ári,“ segir Guðbjartur. „Og við höfum síðan möguleika á því að stækka og þá aðallega búningsaðstöðuna, til að taka við fleiri gestum.“

Tækifæri til að auka afþreyingu yfir veturinn

Útsýnið verður ekki af verri endanum; út á Skjálfandaflóann og yfir í Kinnafjöll. Og Guðbjartur segir áformað að opna sjóböðin í júní 2018. „Og við höfum verið að horfa meira til þess að auka hér vetrarafþreyingu og við sjáum þetta alveg kærkomið tækifæri til að efla þann hluta á þessu svæði,“ segir Guðbjartur.

Heimild: Ruv.is

Previous articleFyrsta skóflustungan að nýju pósthúsi Póstsins við Larsenstræti 1 á Selfossi
Next articleHrepptu stóra samninga við borgina í skugga 240 milljóna gjaldþrots