Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir hafnar við sjóböðin á Húsavík

Framkvæmdir hafnar við sjóböðin á Húsavík

182
0
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Hafnar eru framkvæmdir við gerð sjóbaða á Húsavíkurhöfða. Þar verður hægt að taka á móti hundrað þúsund gestum á ári, sem geta baðað sig upp úr heitum sjó sér til heilsubótar. Áætlaður byggingakostnaður er á sjötta hundrað milljónir króna.

Mannvirki fyrir sjóböð á Húsavíkurhöfða hafa verið í undurbúningi frá 2011, en 2014 sótti félagið Sjóböð ehf. um lóð efst á höfðanum. Þar eru framkvæmdir nú hafnar við 600 fermetra hús með veitingastað og búningsklefum og 500 fermetra útisvæði þar sem verða baðlaugar með tæplega 40 gráðu heitum sjó.

<>

Húsvíkingar hafa lengi baðað sig í heitum sjó

Það eru mörg ár síðan gömlu ostakari var komið fyrir uppi á Húsavíkurhöfða og þar hafa Húsvíkingar því lengi baðað sig upp úr heitum sjó, sér til heilsubótar. „Nýtingin á vatninu er með þeim gæðum að þetta er heilsusamlegt, að því leytinu til að þeir sem hafa verið með húðkvilla hafa nýtt sér þetta og fundið frið í eigin skinni,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, stjórnarformaður Sjóbaða ehf.

Mynd með færslu
 Mynd: Basalt arkitektar

 

Geta tekið á móti 100.000 gestum á ári

Vatnið kemur úr tveimur borholum sem þegar eru til staðar, önnur er í notkun við ostakarið og hin er við Húsavíkurhöfn.  „Framkvæmdin er á bilinu 5-600 milljónir í þessum áfanga og mun geta tekið hér um hundrað þúsund geti á ári,“ segir Guðbjartur. „Og við höfum síðan möguleika á því að stækka og þá aðallega búningsaðstöðuna, til að taka við fleiri gestum.“

Tækifæri til að auka afþreyingu yfir veturinn

Útsýnið verður ekki af verri endanum; út á Skjálfandaflóann og yfir í Kinnafjöll. Og Guðbjartur segir áformað að opna sjóböðin í júní 2018. „Og við höfum verið að horfa meira til þess að auka hér vetrarafþreyingu og við sjáum þetta alveg kærkomið tækifæri til að efla þann hluta á þessu svæði,“ segir Guðbjartur.

Heimild: Ruv.is