Á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna voru kynnt frumdrög Yrkis arkitekta varðandi rýmisathugun og umferðarmál í Gömlu höfninni í Reykjavík, frá Hörpu við Austurbakka að Vesturbugt.
Á fundinum gerðu hafnarstjóri og skipulagsfulltrúi grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefur verið. Hafnarstjórn samþykkti að kynna efnið fyrir umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar og fyrirtækjum í hafnsækinni ferðaþjónustu, svo sem hvalaskoðunarfyrirtækjunum.
„Höfnin var og er lífæð samfélagsins í borginni. Í dag iðar höfnin af annars konar lífi,“ segir í kynningu Yrkis arkitekta. Þetta eru orð að sönnu. Gamla höfnin er eitt mikilvægasta svæði Reykjavíkur frá fyrstu tíð og hefur á seinni árum haft gríðarlegt aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.
Í tillögunum er gert ráð fyrir gönguleið, Hafnarhringnum, meðfram höfninni, alveg frá Hörpu út að Þúfu, sem er á svæði HB Granda á Norðurgarði. Lagt er til að gönguleiðin verði máluð, er í brúnum lit í tillögunni. Jafnframt er lagt til að létt rafknúin farartæki geti ferðast á Hafnarhringnum.
Heimild: Mbl.is