Home Fréttir Í fréttum Aðferðir við val á verktökum – er hætta á ferðum?

Aðferðir við val á verktökum – er hætta á ferðum?

316
0
Mynd: SI.is

Aðferðir við val á verktökum – er hætta á ferðum? er yfirskrift fyrirlestrar sem haldinn verður í Háskólanum í Reykjavík næstkomandi mánudag 19. desember kl. 12.00. Það er Björg Brynjarsdóttir sem heldur fyrirlesturinn um 30 eininga verkefni sitt til meistaraprófs í rekstrarverkfræði við HR. Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku í stofu M105 og er öllum heimill aðgangur. Verkefnið er skrifað á ensku með heitinu „A review of contractor selection methods in Iceland: Risky business?“.

<>

Hér er stuttur útdráttur á íslensku:

„Gæðavandamál, tafir og hár kostnaður eru þekkt í byggingariðnaðinum og hefur skuldinni oft verið skellt á óútreiknanlegt eðli iðnaðarins. Víst er að margt getur haft áhrif á verkefni í byggingariðnaði, en einn af mikilvægustu þáttum árangurs er hvernig staðið er að vali á verktaka.

Sú staðreynd að meirihluti opinberra framkvæmda á Íslandi fer fram úr kostnaðaráætlun – ásamt fréttum af skattsvikum, mansali og slysum – vekur upp þá spurningu hvernig íslensk fyrirtæki standa að vali á verktökum.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvaða aðferðir eru notaðar við val á verktökum á Íslandi, bera þær saman við þær aðferðir sem mælt er með í rituðum erlendum heimildum, ásamt því að meta hvort þær feli í sér of mikla áhættu fyrir íslensk fyrirtæki.

Í rannsókninni voru viðtöl tekin við íslenska verktaka og verkkaupa og viðamikil spurningakönnun var lögð fyrir um 1.400 stjórnendur íslenskra fyrirtækja.

Niðurstöður sýna að íslensk fyrirtæki taka fleiri þætti en verð inn í myndina við kaup á þjónustu verktakafyrirtækja, en verð er þó sá þáttur sem hefur langmest vægi.

Aðrir þættir sem lagðir eru til grundvallar eru fagleg þekking starfsmanna, reynsla fyrirtækis í sambærilegu verkefni og það hvort verktakinn hafi unnið fyrir fyrirtækið áður. Aðrir þættir hafa mun minna vægi við val á verktaka, svo sem fjárhagslegur stöðugleiki verktakans, hvort hann starfræki vottað gæðakerfi eða vinni eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun. Þessar niðurstöður benda til þess að þær aðferðir sem fyrirtæki nota við val verktaka feli í sér of mikla áhættu og að hér sé töluvert svigrúm til umbóta.“

Leiðbeinendur Bjargar eru dr. Helgi Þór Ingason, prófessor í rekstrarverkfræði við HR, og Halldór Jónsson, hæstaréttarlögmaður. Prófdómari er dr. Gunnar Stefánsson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands.

Heimild:SI.is