Búið er að loka Grensásvegi til suðurs frá Suðurlandsbraut að Ármúla. Er þetta gert vegna færslu lagna á vegum Veitna og er áætlað að lokunin standi yfir í um fjóra mánuði.
Þetta staðfestir Rún Ingvarsdóttir, samskiptastjóri Veitna, í samtali við mbl.is.
Framkvæmdin er á vegum Veitna og er verið að flytja lagnir úr Orkureit út í Grensásveg.
Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að lokunin eigi eftir að valda víðtækum truflunum og töfum í umferðinni meðan á lokun stendur.
„Sérstaklega í síðdegis umferð þar sem við erum að tala um að Grensásvegur til suðurs verður ekki notaður sem akstursleið fyrir þá sem ætla sér í austurborgina að Suðurlandsbraut til dæmis. Þannig hún dreifist þá annað,“ segir Guðbrandur.
Áætluð verklok 31. mars
Að sögn Guðbrands átti upphaflega að framkvæma lokunin á föstudag í síðustu viku en því var frestað að beiðni lögreglu vegna veðurfars.
Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem birtist á Facebook segir að gert sé ráð fyrir því að verklok verði ekki fyrr en 31. maí.
„Hjáleiðir og lokanir verða vel merktar og eru ökumenn beðnir um virða þær og fara varlega. Umferð getur orðið þung á háannatímum vegna mikils umferðarálags á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is