Landsvirkjun hefur ákveðið að fara í útboð á vindmyllum fyrir Búrfellslund, vindorkuver við Vaðöldu. Skeiða- og Gnúpverjahreppur mótmælir útboðinu.
Landsvirkjun kynnti fyrr í mánuðinum að ráðist yrði í útboð fyrir Búrfellslund en þar er gert ráð fyrir allt að 30 vindmyllum, hverri með 4-5 MW uppsett afl og samanlagðri orkugetu um 440 GWst á ári. Rammaáætlun reiknar með allt að 120 MW uppsettu afli. Verkefnið er boðið út með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Áætlaður framkvæmdatími við uppsetningu vindmyllanna er tvö ár. Takmarkast uppsetningartími þeirra að mestu við sumartímann vegna veðurskilyrða.
Samið við íslenska ríkið
Verkefnið hefur skv. Landsvirkjun verið í þróun í rúman áratug og var samþykkt í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022. Sótt var um virkjunarleyfi í október sama ár, með fyrirvara um afgreiðslu skipulagsmála.
Vinna við aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags fyrir svæðið hefur staðið yfir frá desember 2022 með Rangárþingi ytra, en Búrfellslundur er innan sveitarfélagsins. Segir Landsvirkjun jafnframt unnið að samningum við íslenska ríkið sem landeiganda en landsvæðið er innan þjóðlendu.
Ráðist sé í útboðið nú til að auka líkur á því að koma orku inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026, en útboðsferli séu tímafrek og afhendingartími á búnaði langur.
Óhefðbundið ferli
Útboðsferlið er talið geta orðið um átta mánaða langt og er samhliða unnið að endanlegu skipulagi verkefnisins. Landsvirkjun segir vonir bundnar við að öll tilskilin leyfi og samningar verði í höfn á þeim tíma en heldur óvenjulegt er að ráðast í útboð án þess að leyfis- og skipulagsmál liggi fyrir.
„Að hefja útboð með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál er óhefðbundið ferli hjá Landsvirkjun og tekur fyrirtækið þarna nokkra áhættu þrátt fyrir fyrirvara í útboðum. Stjórn fyrirtækisins telur hana hins vegar viðunandi miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi og samþykkti á fundi sínum 12. janúar sl. að fara þessa leið,“ segir í tilkynningu.
Mótmæla harðlega
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sendi í kjölfar fregnar um útboðið frá sér tilkynningu þar sem mótmælt er harðlega vinnubrögðum Landsvirkjunar í undirbúningi að vindorkuverkinu í Búrfellslundi. Sveitarstjórnin telji að stjórnvöldum sé ekki heimilt að veita leyfi tengt Búrfellslundi samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Búrfellslundur hafi verið hannaður í mismunandi útfærslum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra. Í umhverfismatinu, sem liggi til grundvallar afgreiðslu rammaáætlunar og Alþingis, sé gert ráð fyrir að nýta núverandi raforkuinnviði svæðisins sem að megninu til séu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
„Virkjanakosturinn Búrfellslundur, sem samþykktur var í nýtingarflokk samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun 48/2011, er því háður samþykki bæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Þann 8. júní 2023 nýtti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sér 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlunar nr. 48/2011 og fór fram á frestun á virkjanakostinum.
…Skýrt kemur fram í lögunum að sé farið fram á frestunina skuli fara með virkjanakostinn eins og hann sé í biðflokki og því er stjórnvöldum ekki heimilt að veita leyfi tengt virkjanakostinum,“ segir í tilkynningunni.
Gríðarlegt inngrip
Jafnframt segir að Búrfellslundur muni takmarka möguleika sveitarfélagsins til uppbyggingar í ferða- þjónustu og útivist á svæðinu og ljóst að ekkert sveitarfélag geti samþykkt að slík uppbyggingaráform séu keyrð áfram gegn vilja viðkomandi sveitarfélags.
Heimild: Bbl.is