Home Fréttir Í fréttum Hálfs milljarðs sekt og fangelsisdómar í skattsvikahringekju

Hálfs milljarðs sekt og fangelsisdómar í skattsvikahringekju

266
0
Háar fjárhæðir gengu á milli fólks í reiðufé. Shutterstock

Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi fimm einstaklinga vegna umfangsmikilla skattalagabrota. Átta ár liðu frá því rannsókn hófst þar til dómur var kveðinn upp. Hvert félagið á fætur öðru var látið gefa út tilhæfulausa reikninga.

<>

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í febrúar fimm einstaklinga fyrir stórfelld skattalagabrot. Einn einstaklingur þótti tengja tvö fyrirtæki með útgáfu tilhæfulausra reikninga fyrir verkefni sem voru aldrei unnin. Með því gátu fyrirtækin vantalið virðisaukaskatt og oftalið innskatt á framtölum.

Dómurinn var kveðinn upp 13. febrúar en ekki birtur fyrr en í dag, eftir að fréttastofa hafði krafist aðgangs að honum. Vitnað var í dóminn í öðrum dómi sem kveðinn var upp í máli skiptastjóra Brotafls gegn fyrrverandi stjórnendum í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Samkvæmt reglum dómstólasýslunnar á að jafnaði að birta dóma í síðasta lagi fimm virkum dögum eftir að þeir eru beðnir upp, og ekki síðar en innan fjórtán daga.

Skilorðsbundið fangelsi og sektir

Allir fimm sakborningar voru sakfelldir. Konráð Þór Lárusson, Kristján Þórisson og Róbert Páll Lárusson fengu átján mánaða fangelsisrefsingu. Sigurjón G. Halldórsson og Þórkatla Ragnarsdóttir hlutu fimmtán mánaða dóm. Samanlagt var fólkið dæmt til að greiða 456 milljónir króna í sekt í ríkissjóð og 21 milljón í málskostnað. Refsingarnar eru allar skilorðsbundnar vegna mikils dráttar á rannsókn málsins og útgáfu ákæru.

Skattalagabrot í vinnu við fangelsi

Brotin sem var dæmt fyrir framdi fólkið á árunum 2012 til 2015. Kristján gaf út reikninga í nafni ýmissa fyrirtækja sem hin ákærðu notuðu í bókhaldi og skattauppgjöri fyrirtækja sinna. Konráð og Róbert voru með fyrirtækið Kraftbindingu og Sigurjón og Þórkatla með fyrirtækið Brotafl.

Samkvæmt reikningunum unnu fyrirtæki sem Kristján var í forsvari fyrir margvísleg verk fyrir Brotafl og Kraftbindingu, meðal annars við byggingu fangelsisins á Hólmsheiði. Við þessi verk átti hann að hafa haft fjölda starfsmanna í vinnu, á þriðja tug þegar mest var. Vandamálið var aðeins, frá sjónarhorni skattsins, að þessi vinna var aldrei unninn og starfsmennirnir ekki til í raun og veru.

Laug því að hann hefði eytt fé í utanferðir, fíkniefni og stelpur

Rannsókn málsins hófst sumarið 2015 þegar starfsmenn ríkisskattstjóra fór að gruna að ekki væri allt eins og sýndist í rekstri fyrirtækjanna. Skatturinn hóf sína rannsókn og vísaði málinu síðan til embættis héraðssaksóknara.

Öll fimm neituðu sök í fyrstu en Kristján, maðurinn sem átti að vera stórvirkur undirverktaki, breytti síðar frásögn sinni. Hann hafði í fyrstu sagst hafa tekið út 680 milljónir í reiðufé, borgað starfsmönnum um það bil helming en eytt restinni í ferðir erlendis, fíkniefni og stelpur. Síðla árs 2017 sagði hann að þetta hefði allt verið haugalygi. Í raun væru reikningarnir tilhæfulausir og engin vinna að baki þeim.

Aðrir sakborningar héldu því statt og stöðugt fram að þeir væru saklausir en dómari sagði gögn málsins leiða annað í ljós. Það þótti ekki styðja við framburð sakborninga að fæstir virtust kannast við hvaða starfsmenn hefðu átt að vera á launaskrá hjá undirverktakanum, hvorki hann né aðrir sem unnu á sömu vinnusvæðum.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Freyr Arnarson – RÚV

Tveir dómar á skömmum tíma vegna Brotafls

Tvö þeirra sem voru sakfelld í málinu fengu annan dóm vegna rekstur fyrirtækis síns fyrir skemmstu. Sigurjón og Þórkatla voru ásamt öðrum manni dæmd til að greiða þrotabúi Brotafls 86 milljónir króna. Það var vegna úttekta í rekstri fyrirtækisins, sem þau sögðu hafa farið í margvíslegar greiðslur í rekstri fyrirtækisins. Þar sem þeim tókst ekki að sýna fram á það með gögnum taldi dómari þess máls að greiðslurnar væru ólögmætar lánveitingar til stjórnenda.

Í báðum málum var byggt á því að Sigurjón og Þórkatla hefðu í raun stýrt rekstri Brotafls þó svo Þórkatla væri ekki skráð fyrir neinu formlegu hlutverki. Þórkatla sagði við meðferð skattamálsins að hún hefði aðeins verið að aðstoða les- og skrifblindan mann sinn sem kynni ekki á tölvu. Dómara þótti þó sýnt fram á, af gögnum málsins, að hún hefði tekið þátt í stjórn fyrirtækisins.

Allt skilorðsbundið vegna dráttar hjá yfirvöldum

Dómari setti ofan í við yfirvöld í dómnum vegna þess hversu langur tími leið frá því rannsókn hófst þar til ákæra var gefin út. Dómari tiltekur sérstaklega að dómari hafi farið í margs konar þvingunar- og rannsóknaraðgerðir. Þar á meðal voru hleranir, húsleitir og gæsluvarðhald sem fólkið var úrskurðað í auk þess sem eignir voru kyrrsettar.

Dómari finnur að því að skýrsla skattrannsóknarstjóra hafi ekki verið send héraðssaksóknara fyrr en rúmlega þremur árum eftir að rannsókn hófst. Rannsókn hafi svo legið niðri í rúmlega tvö ár og ákæra ekki verið gefin út fyrr en rúmlega sex árum eftir að rannsókn hófst. Dómari segir að gera verði þá kröfu til ákæruvaldsins og rannsakenda að þeir ljúki rannsókn svo fljótt sem auðið er og gefi út ákæru án nokkurs dráttar. Engar skýringar hafi fengist á því hvers vegna þetta dróst svo mjög.

Vegna þessa ákvað dómarinn að skilorðsbinda alla refsingu sakborninga, bæði fangelsisvistina og fésektirnar. Haldi fólkið almennt skilorð í þrjú ár fellur refsingin niður.

Heimild: Ruv.is