Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast í Hljómskálagarði

Framkvæmdir hefjast í Hljómskálagarði

161
0
Hér má sjá afmörkun framkvæmdasvæðisins.

Framkvæmdir við að styrkja og byggja upp viðburðarsvæðið í Hljómskálagarðinum hefjast á næstu dögum. Um er að ræða fyrsta áfanga verksins. Tilgangurinn er að gera garðinn betur í stakk búinn til að taka á móti mannfjölda á stórum hátíðisdögum í Reykjavík.

<>

Fótboltavallagras, dren og vökvunarkerfi

Til að svæðið þoli þetta álag verður slitþolið gras lagt á svæðið, svipað því og sett er á fótboltavelli. Undir grasflötinni verður drenlagnakerfi sem veitir vatni frá þegar rignir mikið og einnig verður komið fyrir vökvunarkerfi sem hægt er að nota þegar þurrt er. Með þessu verður grasflötin viðhaldsminni en verið hefur og fljótari að jafna sig eftir stóra viðburði.

Gott svæði fyrir fyrir svið og matarvagna

Á norðurhluta grasflatarinnar verður gert upphækkað grassvæði með góðri burðargetu þar sem pláss er fyrir tímabundið svið fyrir hátíðarhöld. Upphækkaða grasflötin er afmörkuð með grágrýtishleðslu með innfelldri lýsingu og hellulagðri gönguleið. Hún nýtist því vel þegar ekkert svið er í notkun.

Við upphækkuðu grasflötina verður svæði fyrir þjónustubíla vegna viðburða og akstursleiðin inn á viðburðarsvæðið frá Hringbraut verður lagfærð. Aðstaða fyrir matarvagna verður á aðliggjandi svæði.

Viðburðir sumarsins

Hönnunin var gerð í samvinnu við viðburðateymi borgarinnar sem hefur mikla reynslu af skipulagningu viðburða í miðborginni og þekkir því þarfirnar vel. Björg Jónsdóttir er yfir viðburðadeildinni.

Hvað þýðir þetta fyrir viðburði í framtíðinni?

„Þetta þýðir það að hægt verður að hafa fleiri og fjölbreyttari viðburði í Hljómskálagarðinum auk þess sem aðstaða fyrir viðburðahaldara verður betri,“ segir Björg.

Munu framkvæmdirnar hafa áhrif á viðburðahald sumarsins?

„Já, þetta mun hafa áhrif á viðburðasumarið að því leyti að ekki verður hægt að nota stóru grasflötina þar sem tónleikar og aðrir stórir viðburðir hafa vanalega verið haldnir, fram eftir sumri. En Hljómskálgarðurinn er stór svo hægt verður að finna viðburðahaldi, til dæmis á 17. júní, annan stað í garðinum þetta sumarið,“ segir hún.

Framkvæmdasvæðið verður lokað af á meðan framkvæmdum stendur. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdin hafi teljandi áhrif á umferð um garðinn eða nágrenni hans.  Framkvæmdunum verður lokið fyrir menningarnótt sem fram fer laugardaginn 19. ágúst.

Heimild: Reykjavik.is